Skoðun

Tryggja þarf rétt til aðstoðar við að krefjast sanngirnisbóta

Ívar Þór Jóhannsson skrifar
Mikil umræða hefur farið fram undanfarið um greiðslu sanngirnisbóta í tengslum við útgáfu Vistheimilanefndar á nýrri skýrslu um vistun barna á Kópavogshæli á árunum 1952 til 1993. Niðurstöður skýrslunnar eru afdráttarlausar og er óþarfi að rekja þær hér að öðru leyti en því að þar sættu vistmenn í verulegum mæli líkamlegu- og andlegu ofbeldi auk þess að þola illa meðferð. Er því ljóst að margir vistmenn kunna að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu sanngirnisbóta vegna vistunar skv. lögum nr. 47/2010.

Framkvæmd stjórnvalda stóðst ekki lög

Undirritaður hefur áður skrifað blaðagrein um sanngirnisbætur en greinin birtist í Fréttablaðinu þann 27. nóvember 2015 undir yfirskriftinni „Eiga fleiri rétt á sanngirnisbótum?“. Fjallaði greinin um dómsmál sem undirritaður rak fyrir hönd ungrar konu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en sýslumaður og Úrskurðarnefnd sanngirnisbóta höfðu synjað henni um sanngirnisbætur á þeim grundvelli að sú illa meðferð og ofbeldi sem hún varð fyrir í Heyrnleysingjaskólanum hefði ekki farið fram innan þess tímabils sem Vistheimilanefnd kaus að beina rannsókn sinni að. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði þegar greinin var skrifuð fellt umræddar stjórnvaldsákvarðanir úr gildi og síðar staðfesti Hæstiréttur Íslands þá niðurstöðu, sem leiddi til þess að fleiri tjónþolar töldust eiga rétt á sanngirnisbótum.

Tjónþolar þurfa hagsmunagæslu

Þessar niðurstöður dómstóla staðfesta að tjónþolar geta þurft á lagalegri réttindagæslu að halda þegar þeir krefjast sanngirnisbóta hjá stjórnvöldum enda eru úrlausnir stjórnvalda ekki óbrigðular. Í málaflokknum reynir á tiltölulega nýleg lagaákvæði sem ekki hefur reynt mikið á fyrir dómstólum. Þessu til frekari staðfestingar má benda á að unga konan sem höfðaði framangreint dómsmál undirbýr nú nýtt dómsmál þar sem reyna mun á réttindi hennar tengd sanngirnisbótum auk þess sem fleiri aðilar hafa leitað til undirritaðs sökum þess að þeir geta ekki fellt sig við niðurstöðu stjórnvalda varðandi kröfur þeirra. Í öllu falli er ljóst að huga getur þurft gætilega að lagalegum réttindum tjónþola við kröfugerð og í samskiptum þeirra við stjórnvöld.

Tryggja þarf rétt til aðstoðar

Undirritaður tekur af heilum hug undir orð Hrefnu Friðriksdóttur, formanns vistheimilanefndar, í viðtali við Ríkisútvarpið þann 7. febrúar 2017 þar sem lögð er áhersla á að tjónþolar fái aðstoð við að lýsa kröfum og fylgja þeim eftir. Samkvæmt núgildandi lögum um sanngirnisbætur virðist ekki fyrir hendi heimild til greiðslu kostnaðar lögmanns vegna hagsmunagæslu á lægra stjórnsýslustigi, þ.e. hjá sýslumanni. Lögin gera hins vegar ráð fyrir því að tjónþolar geti fengið slíkan kostnað greiddan vegna hagsmunagæslu á æðra stjórnsýslustigi, þ.e. fyrir Úrskurðarnefnd sanngirnisbóta, en slík þóknun takmarkast þó við sem svarar að hámarki 10 klst. vinnu. Úrskurðarnefnd sanngirnisbóta hefur túlkað umrædda lagareglu á þá leið að tjónþolar eigi ekki rétt á greiðslu lögmannskostnaðar nema þeir eigi jafnframt rétt á greiðslu sanngirnisbóta. Þeir tjónþolar sem kjósa að leita réttar síns þurfa því að bera kostnað við það, ef krafa þeirra nær ekki fram að ganga.

Af þessu er ljóst að tryggja þarf betur réttindi tjónþola til aðstoðar við að krefjast sanngirnisbóta, bæði á lægra og æðra stjórnsýslustigi enda um mikilvægt hagsmunamál þess hóps að ræða. Reynslan hefur sýnt að slík aðstoð er nauðsynleg bæði hvað varðar lagaleg atriði og í því skyni að aðstoða tjónþola til að koma kröfum sínum á framfæri.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×