Bíó og sjónvarp

True North framleiðir sjónvarpsseríu um raðmorðingja í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Margrét Örnólfsdóttir og Óttar Norðfjörð skrifa handritið að Valhalla Murders sem fjallar um raðmorðingja í Reykjavík.
Margrét Örnólfsdóttir og Óttar Norðfjörð skrifa handritið að Valhalla Murders sem fjallar um raðmorðingja í Reykjavík. Vísir/Anton
Katheryn Winnick, úr sjónvarpsþáttunum Vikings, mun leika í myndinni Journey Home sem íslenska fyrirtækið True North framleiðir. Greint er frá þessu á vef ScreenDaily en þar kemur einnig fram að True North hafi ásamt íslenska framleiðslufyrirtækinu Mystery tryggt sér réttinn að bókum rithöfundarins Stefán Mána sem segja frá raunum lögreglumannsins Harðar Grímssonar.

Þá segir á vef ScreenDaily að True North og Mystery Productions ætli einnig að hefja tökur á sjónvarpsseríunni Valhalla Murders undir lok þessa árs sem á að fjalla um raðmorðingja í Reykjavík.

True North er sömuleiðis með á dagskrá hjá sér myndina The Hidden ásamt Mystery Productions sem á að fara í tökur í haust sem fjallar um jarðfræðing sem fer til Íslands til að afhjúpa hulið fólk.

Í fréttinni kemur einnig fram að True North sé jafnframt með á dagskrá hjá sér myndina Mihkel sem fjallar um innflytjanda á Íslandi sem deyr við að smygla fíkniefnum til landsins.

Journey Home, sem er byggð á samnefndri bók íslenska rithöfundarins Ólafs J. Ólafssonar, sem heitir Slóð fiðrildanna á íslensku, mun fjalla um íslenska kona sem flytur til Bretlands til að gerast kokkur í seinni heimstyrjöldinni. Myndin verður tekin upp á Íslandi og Englandi. Leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur er Lisa Forrell.

Í frétt Screen Daily er talað um að sjónvarpsþáttaröðin um Hörð Grímsson verði frumsýnd árið 2019 eða 2020.

Þá segir einnig þar að handritshöfundar Valhalla Murders verði Margrét Örnólfsdóttir og Óttar Norðfjörð.

Leikstjóri Mihkel verður Ari Alexander sem á að baki heimildarmyndirnar Gargandi snilld og Syndir ferðranna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×