Enski boltinn

Townsend og franskur landsliðsmarkvörður til Crystal Palace

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Crystal Palace hefur gengið frá kaupum á tveimur leikmönnum. Þetta eru enski kantmaðurinn Andros Townsend og franski markvörðurinn Steve Mandanda.

Townsend skrifaði undir fimm ára samning við Palace sem komst í úrslit ensku bikarkeppninnar á síðasta tímabili þar sem liðið tapaði fyrir Manchester United.

Palace greiddi 13 milljónir punda fyrir Townsend sem kom til Newcastle frá Tottenham Hotspur fyrir 12 milljónir punda í janúar. Palace og Newcastle hafa því eytt samtals 25 milljónum punda í þennan 24 ára gamla leikmann á hálfu ári.

Townsend spilaði ágætlega með Newcastle á síðasta tímabili; skoraði fjögur mörk í 13 leikjum og gaf tvær stoðsendingar. Það dugði þó ekki til að halda liðinu í ensku úrvalsdeildinni.

Townsend hefur skorað þrjú mörk í 10 landsleikjum fyrir enska landsliðið en hann var á biðlista fyrir EM í Frakklandi.

Framherjinn Dwight Gayle fór hina leiðina, frá Palace til Newcastle fyrir 10 milljónir punda. Gayle skrifaði undir fimm ára samning við Newcastle sem leikur í ensku B-deildinni á næsta tímabili.

Mandanda skrifaði undir þriggja ára samning við Palace en hann kemur til Lundúnaliðsins frá Marseille sem hann hefur leikið með frá árinu 2008. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.

Mandanda, sem er fæddur í Kongó, hefur verið einn besti markvörður frönsku úrvalsdeildarinnar og á 22 A-landsleiki að baki fyrir Frakkland.

Mandanda, sem er 31 árs, er í leikmannahópi Frakka á EM en þeir mæta sem kunnugt er Íslendingum í 8-liða úrslitum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×