Töluvert rok hefur verið við Hornafjörð og í nágrenni hans það sem af er degi. Hefur þurft að hjálpa hjólreiðarfólki sem lenti í vanda og þá hefur hey fokið af nýslegnum túnum og bændur þannig orðið fyrir tjóni. „Fólk er að fella netin á trampólíninu og fella lausamuni í görðunum,“ segir Elín Freyja Hauksdóttir, formaður björgunarfélags Hornafjarðar.
Hún segir björgunarfélaginu ekki hafa borist nein útköll það sem af er degi en allt eins von á því í kvöld. Norðanátt er á svæðinu sem getur reynst erfið í Suðursveit og á Mýrum.
„Þarna er vindurinn að koma ofan af jökli og safnast saman í giljum og getur myndað svona hvelli. Þetta er vond átt fyrir þá sem eru að ferðast. Húsbílar og hjólhýsi lenda í vandræðum ef fólk er á leiðinni í átt að Reykjavík eða austur.“
Töluvert rok við Hornafjörð: „Þetta er vond átt fyrir þá sem eru að ferðast“
Birgir Olgeirsson skrifar
