Skoðun

Tolleringar í MR

Sigmar Aron Ómarsson skrifar
Undanfarnar vikur hefur farið fram mikil umræða um svokallaðar busavígslur. Þær hafa verið mikið gagnrýndar og þeim hætt í allflestum skólum. Markmiðið er að koma í veg fyrir að einhverjum nýnemum líði illa fyrstu dagana í nýjum skóla, skiljanlega.

Í Menntaskólanum í Reykjavík var ákveðið að fara ákveðna millileið í þessum efnum. Hinni eiginlegu „busun“, þ.e. stríðni og fleira í þeim dúr, var alfarið hætt en haldið var í hina gömlu hefð okkar MR-inga sem tolleringar eru. Þannig er hægt að búa til skemmtilega upplifun fyrir nemendur skólans, bæði nýnema sem og eldri nemendur, án þess að nokkrum þurfi að líða illa eða vera niðurlægður.

Í hinu daglega lífi tengjast tolleringar ávallt fögnuði og gleði. Íþróttalið fagna til dæmis sigrum í mikilvægum leikjum eða keppnum með því að tollera þjálfara sína. Á sama hátt er nær að tala um tolleringar í MR sem eins konar nýnemahyllingu í stað busavígslu. Mikils misskilnings hefur gætt í umræðu síðustu vikna og hafa tolleringar verið settar í flokk með hefðbundnum busavígslum. Auk þess hefur skólinn verið gagnrýndur harðlega fyrir að vilja halda í þessa skemmtilegu hefð.

Fimmtudaginn 4. september voru haldnar tolleringar í MR. Viðburðurinn var afar vel heppnaður og allir, nýnemar jafnt sem eldri nemendur, skemmtu sér konunglega. Að lokinni tolleringunni sjálfri voru nýnemarnir boðnir velkomnir af formönnum nemendafélaga skólans og þeim boðið upp á köku og mjólk. Um kvöldið skemmtu sér svo allir saman á nýnemadansleik Skólafélagsins. Undirritaður hvetur önnur nemendafélög og skóla eindregið til að fylgja fordæmi MR og skapa sér sínar eigin „nýnemahyllingar“ svo nýnemar um allt land verði boðnir velkomnir í sína skóla með eftirminnilegum hætti.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×