Innlent

Tilbúin að drepast þó það væri strax á morgun

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Guðný Baldvinsdóttir, 102 ára íbúi í Borgarnesi hefur aldrei farið í sund, aldrei í leikfimi og aldrei drukkið lýsi, áfengi eða reykt.

Guðný er mjög ern og hress og líður vel á dvalarheimilinu Brákarhlíð. Hún fer í gönguferðir á hverjum degi með göngugrindina sína og það fer vel um hana í rúmgóðu herbergi. Hún gerir mikið af því að prjóna og lesa. Guðný er fædd í Hvítársíðu í Borgarfirði en þaðan fluttist hún að Grenjum og síðan ráðskona á Leirulæk á Mýrum í tæplega 40 ár. Guðný er mjög nægjusöm og hógvær og henni finnst ekkert merkilegt að vera orðin 102 ára gömul.

„Mér finnst það ekkert merkilegt og ég hef aldrei fundið neitt við það og mér finnst það með ólíkindum að maður skuli ekki fá frið, það þurfi að koma í útvarpið eða í blöðum eða einhver viðtöl þegar maður er orðinn nógu afgamall og farinn að sljóvgast, þá geti maður ekki haft sín rólegheit eins og maður hafði alltaf, maður var ekki svo merkilega persóna. Ég held að ég hafi ekkert fengið neina bót á því þegar ég varð 100 ára, ekki var ég vör við það“, segir Guðný.

En er Guðný ekki ánægð með þá athygli sem hún fær ?

„Nei, ég hef aldrei verið athyglissjúk og vona að ég verið það ekki.“

En hvað ætlar hún að verða gömul?

„Eins og forsjónin sér um, ég er tilbúin að drepast þó það væri strax á morgun.“

Guðný hefur aldrei þurft að taka lyf í gegnum þessi 102 ár.

„Ég hef ekkert haft við það að gera, ég hef haft góða heilsu og lifað á því,“ segir hún.

Guðný kann mörg hundruð vísur. Í fréttinni hér að ofan má sjá Guðnýju fara með eina þeirra.

En hefur Guðný einhvern tímann bragðað áfengi?

„Nei, aldrei smakkað það og aldrei reykt, aldrei tekið lýsi og aldrei farið í leikfimi og aldrei farið í sund,“ segir Guðný.

Hún var spurð hvort hún væri að segja satt. „Já, ég er að segja satt,“ sagði Guðný þá.​



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×