Innlent

Þrjú ungmenni í gæsluvarðhaldi grunuð um innbrotaleiðangur um Suðurland

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögreglu berast enn tilkynningar um innbrot á leið þremenninganna um Suðurlandið.
Lögreglu berast enn tilkynningar um innbrot á leið þremenninganna um Suðurlandið. Vísir/GVA
Mennirnir tveir sem lögregla á Suðurlandi handtók í gær og grunaðir eru um innbrotafaraldur á Suðurlandi í vikunni eru nítján og tuttugu ára. Þeir voru handteknir á Kirkjubæjarklaustri á bíl sem talið er að hafi verið stolinn og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu fannst mikið magn þýfis í bílnum. Þá fannst stuttu eftir handtökuna nítján ára stúlka sofandi í sumarbústað skammt frá Kirkjubæjarklaustri þar sem brotist hafði verið inn og mikið magn af ætluðu þýfi fannst. Stúlkan er grunuð um að hafa brotist inn í á annan tug staða með mönnunum tveimur.

Þremenningarnir eru grunaðir um að hafa stolið bílnum í Reykjavík og lagt af stað í innbrotaleiðangur um Suðurland þar sem meðal annars var komið við í apótekinu á Hellu, Beinaverksmiðjunni í Flóanum fyrir austan Selfoss, hóteli í Drangshlíð, sjoppu við Landvegamót og sumarbústað við Kirkjubæjarklaustur. Lögreglu eru enn að berast tilkynningar um innbrot og þjófnaði á leið þeirra.

Samkvæmt lögreglu reyndist ekki unnt að taka skýrslu af fólkinu fyrr en eftir hádegi í dag vegna ástands þeirra. Í framhaldi af skýrslutöku voru þau leidd fyrir dómara sem féllst á kröfu lögreglu um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir þeim. Lögregla segir enn mikla vinnu eftir við að heimfæra þýfi á brotavettvanga og enn er óljóst hvort tilkynningar hafi borist um þá alla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×