Innlent

Þrjú þúsund nýjar leiguíbúðir í Reykjavík

Höskuldur Kári Schram skrifar
Byggðar verða hátt í þrjú þúsund leiguíbúðir í Reykjavík á næstu fimm árum samkvæmt tillögu sem nú liggur fyrir borgarráði. Formaður borgarráðs segir að ástandið á leigumarkaði kalli á stórtækar aðgerðir.

Starfshópur Reykjavíkurborgar um innleiðingu húsnæðisstefnu mótaði tillögurnar en þær gera ráð fyrri því að íbúðirnar verði byggðar í samvinnu við leigu- og búseturéttarfélög til að tryggja viðráðanlegt leiguverð. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að markmiðið sé að breyta húsnæðismarkaðinum í Reykjavík og gera hann fjölbreyttari.



„Í fyrsta lagi ef ekkert verður að gert þá stefnir í húsnæðiskreppu hjá stórum hópi borgarbúa. Í öðru lagi að lausnin sé sú að stórauka framboð af leiguhúsnæði og við viljum sem mest af því á viðráðanlegu verði fyrir venjulegt fólk. Þess vegna stillum við upp áætlun fyrir 2.500 til 3 þúsund nýjar leiguíbúðir á næstu þremur til fimm árum,“ segir Dagur.

Borgin mun úthluta byggingalóðum undir verkefnið en um er að ræða lóðir á eftirsóttum stöðum. Til dæmis er gert ráð fyrir 50 íbúðum á hinni svökölluðu Landhelgisgæslulóð, 500 íbúðum við Hlíðarenda, 220 íbúðum við Einholt-Þverholt og 49 íbúðum við Tryggvagötu 13.

Reykjavíkurborg mun í samvinnu við Félagsbústaði byggja 400 til 800 íbúðir en heildarfjárfestingin nemur 22 milljörðum krónur.

„Núna þarf stórátak til þess að tryggja almennilegan, heilbrigðan leigumarkað fyrir venjulegt fólk í Reykjavík og við erum með það markmið í þessum tillögum að stíga stór skref í því. Við þurfum alla með í það,“ segir Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×