Sport

Þríþrautarsambands Íslands stofnað í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldóra Gyða Matthíasdóttir, formaður Þríþrautarsambands Íslands, Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ.
Halldóra Gyða Matthíasdóttir, formaður Þríþrautarsambands Íslands, Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ. Vísir/Ernir
Stofnþing Þríþrautarsambands Íslands var haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í kvöld en þetta er 32. íþróttasambandið innan Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands.

Þríþrautarnefnd ÍSÍ hefur starfað innan vébanda ÍSÍ um langt skeið og hefur markmið nefndarinnar verið að hafa umsjón með útbreiðslu og uppbyggingu greinarinnar undir leiðsögn og eftirliti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og að undirbúa stofnun sérsambands um þríþraut.

Þríþraut eru stunduð í eftirtöldum séraðssamböndum/íþróttabandalögum innan ÍSÍ: Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, Héraðssambandi Vestfirðinga, Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar, Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Ungmennasambandi Kjalarnesþings.

Með stofnun Þríþrautarsambands Íslands verða sérsambönd ÍSÍ orðin 32 talsins. Halldóra Gyða Matthíasdóttir er formaður Þríþrautarsambands Íslands.

Þríþraut er þriggja greina keppni og tekur hver við af annarri.

Hérlendis er keppt í eftirtöldum afbrigðum:



Sprettþraut: 400 metrar sund, 10 km hjól, 2,5 km hlaup. Oftast fyrsta keppni ársins og haldin í Kópavogi við Kópavogslaugina.

Hálfólympísk þraut: 750 metrar sund, 20 km hjól, 5 km hlaup. Hefur farið fram í mekka þríþrautarinnar í Hafnarfirði við Ásvallalaug í júníbyrjun. Vasaþrautin á Ísafirði er í byrjun september og synt er í lauginni í Bolungavík.

Ólympísk þríþraut: Í henni er keppt á Ólympíuleikum. 1500 metrar sund, 40 km hjól, 10 km hlaup. Hefur verið haldin á Laugum í Reykjadal undanfarin ár, með því fráviki að hvílt er milli sunds og hjóls.

Hálfur járnkarl: 1900 metrar sund, 90 km hjól, 21,1 hlaup.

Haldinn í Hafnarfirði í júlí undanfarin tvö ár.

Heill járnkarl (Ironman): 3,8 km sund, 180 km hjól, 42.2 km hlaup. Þykir erfiðasta fjölþrautakeppni heims og nýtur nú mikilla vinsælda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×