Innlent

Þrisvar sinnum fleiri svipta sig lífi en deyja í bílslysum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjörutíu til fimmtíu manns svipta sig lífi hér á landi á ári hverju og er meirihlutinn karlmenn. Það eru þrisvar sinnum fleiri en deyja í bílslysum að jafnaði. Landlæknisembættið hefur ekki ráðist í árvekniátak til að berjast gegn sjálfsvígum líkt og á fyrstu árum þessarar aldar en embættið er stöðugt að vinna í að auka fræðslu og skilning á þunglyndi.

Gunnar Hrafn Jónsson alþingismaður tók sér nýlega leyfi frá störfum vegna glímu við þunglyndi en um er að ræða mjög alvarlega geðsjúkdóm sem á þátt í mörgum sjálfsvígum hér á landi á ári hverju.

Síðastliðinn áratug hafa fjörutíu til fimmtíu manns svipt sig lífi á ári. Ef við skoðum tölur síðustu þriggja ára sem liggja fyrir sést að 49 sviptu sig lífi árið 2013, 44 ári síðar og 40 manns á árinu 2015. Þetta er þrisvar til fjórum sinnum fleiri en deyja í bílslysum hér á landi að jafnaði á ári.

Þegar flokkun eftir kynja er skoðuð kemur í ljós að mun fleiri karlar en konur svipta sig lífi en á síðustu árum hafa að jafnaði þrisvar sinnum fleiri karlar en konur fallið fyrir eigin hendi.

„Því miður er mjög erfitt að segja hvað veldur. Þetta eru fá tilvik en við vitum að í kringum kreppur og þvíumlíkt verður aukning svo kemst jafnvægi á aftur. Margir þessara einstaklinga eru að glíma við erfiðleika. Hér má nefna þunglyndi, kvíðaraskanir, ástarsorg, fíkniefni og erfiðleika í fjölskyldum eða erfiðleika í skólakerfinu,“ segir Salbjörg Bjarnadóttir verkefnisstjóri geðheilbrigðis hjá landlækni um ástæður þess að fólk sviptir sig lífi. 

Árið 2003 fór landlæknisembættið í átakið Þjóð gegn þunglyndi og stóð það yfir í tæpan áratug. Starfsmenn embættisins fóru marga hringi um landið til að fræða fólk um þunglyndi. Rætt var við kennara, námsráðgjafa, presta, starfsfólk félagsþjónustunnar og heilsugæsluna. Síðan þá hefur landlæknir aðallega verið ráðgefandi. Geðdeildir Landspítalans í Reykjavík og Akureyri sinna sjúklingum með þunglyndi. Þá hefur vinna frjálsra félagasamtaka skipt máli.

„Til dæmis Geðhjálp, Hugarafl, Hlutverkasetur, Klúbburinn Geysir, Rauði krossinn með hjálparsímann 1717 sem er mjög öflugt fyrirbæri. Þangað hringja þeir sem eru í miklum erfiðleikum,“ segir Salbjörg. 

Unglingar sem glíma við þunglyndi geta átt mjög erfitt með að tjá tilfinningar sínar eða skilja hvað amar að sér. Sumir unglingar vita heldur ekki hver einkenni þunglyndis eru. Það er mikilvægt að ef það vaknar grunur um þunglyndi að það sé rætt inni á heimilinu og eftir atvikum leitað til fagfólks því margir sem þjást bera harm sinn í hljóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×