Innlent

Þrír alvarlega slasaðir eftir bílslys á Reykjanesbrautinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slysið varð um klukkan sjö í morgun og eru miklar tafir á umferð.
Slysið varð um klukkan sjö í morgun og eru miklar tafir á umferð. mynd/gísli reynisson
Uppfært klukkan 08:43: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni varð slysið með þeim hætti að bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt á einföldum vegkafla við álverið. Vinnu er að ljúka á vettvangi en samkvæmt vef Vegagerðarinnar er Reykjanesbrautin þó enn lokuð við Straumsvík vegna slyssins.

Uppfært klukkan 08:17: Hinir slösuðu hafa nú allir verið fluttir á slysadeild Landspítala samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Tæknivinna lögreglu er enn í gangi á vettvangi og þá er einn dælubíll frá slökkviliðinu enn á staðnum. Enn er lokað fyrir umferð um Reykjanesbraut.

Alvarlegt bílslys varð á Reykjanesbrautinni rétt um klukkan sjö í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er um að ræða árekstur jeppa og fólksbíls skammt sunnan við álverið í Straumsvík.

Ekki fengust upplýsingar um með hvaða hætti slysið bar að eða hversu margir eru í bílunum en þó liggur fyrir að þrír alvarlega slasaðir. Tveir dælubílar og fjórir sjúkrabílar fóru á staðinn.

Reykjanesbrautin er nánast lokuð vegna slyssins en lögregla reynir að hleypa einum og einum bíl framhjá.

Nú þegar eru miklar tafir á umferð og má búast við því að svo verði áfram á meðan sjúkralið og rannsakendur eru við vinnu á vettvangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×