Innlent

Þráinn Bertelsson í oddaaðstöðu

Þráinn Bertelsson, nýjasti þingmaður Vinstri grænna, gæti verið með líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér eftir að þrír þingmenn sögðu skilið við hana í atkvæðagreiðslu um fjárlögin í gær. Tveir hinna umdeildu þremenninga í órólegu deildinni segjast þó ætla að verja hana falli.

Þrír þingmenn Vinstri grænna sátu hjá í atkvæðagreiðslu um fjárlögin í gær og voru þau samþykkt með aðeins eins atkvæðis meirihluta. Össur Skarphéðinsson, utanríkisríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að stuðningur við ríkisstjórn væri ekki aðeins fólginn í því að verja hana vantraustir.

„Þeir sem að styðja ríkisstjórn þeir verða að uppfylla tvennt að mínu viti. Þeir verða að vera tilbúnir til þess að verja hana vantrausti og þeir verja að styðja fjárlagafrumvarp. Ef að einhverjir einstaklingar gera það ekki hljóta þeir að velta fyrir sér hvar þeir í heiminum þeir eru staddir en þeir verða að gera það upp fyrir sig sjálfir. Ég geri það ekki fyrir þá," sagði Össur.

Þráinn Bertelsson greiddi atkvæði með fjárlögunum í gær og tryggði þar með líf ríkisstjórnarinnar að mati margra. Þráinn gekk í Vinstri græna fyrir aðeins rúmum tveimur mánuðum síðan. Það má því segja að Þráinn sé með líf ríkisstjórnarinnar í lúkunum ef þremenningarnir ætla að fara sína leið öðrum málum sem bíða afgreiðslu þingsins. Fréttastofa reyndi ítrekað að ná tali af Þráni í dag án árangurs.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, er sannfærður um að þremenningarnir verji ríkisstjórnina falli, þrátt fyrir allt.

Atli Gíslason sagði í gær að hann myndi verja ríkisstjórnina vantrausti. Ásmundur Einar Daðason sagði í samtali við Stöð 2 að hann myndi gera slíkt hið sama. Lilja Mósesdóttir getur ekki staðfest að hún muni verja ríkisstjórnina falli, en hún lýsti þessari afstöðu í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í gær. Ekki hefur náðst í Lilju í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×