Innlent

Þjóðhátíð veltir sjö til átta hundruð milljónum

Páll Scheving formaður Þjóðhátíðarnefndar
Páll Scheving formaður Þjóðhátíðarnefndar
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum veltir hundruð milljónum króna en er orðin alltof fjölmenn að margra mati. Vel kemur til greina að færa niður fjöldatakmarkanir segir formaður Þjóðhátíðarnefndar.

Talið er að hátt í 17 þúsund manns hafi hlýtt á Árna Johnsen í Brekkusöngnum á Þjóðhátíð í gærkvöldi. Hátíðin hefur farið ört stækkandi og slegið met í mannfjölda undanfarin ár.

Páll Scheving formaður Þjóðhátíðarnefndar segir hátíðina mikilvæga samfélaginu enda njóti allir eyjamenn góðs af þeim fjölda sem lætur sjá sig á Þjóðhátíð.

En hvað er hátíðin að velta miklu?

„Við vorum að áætla að samfélagið væri að taka sjö til átta hundruð milljónir á hátíð af þessari stærðargráðu. Þannig auðvitað skiptir hún verulegu máli. Það má kannski segja það að fjöldi, eins og er á hátíðinni núna, hún setur ákveðin þanmörk á þolinmæði bæjarbúa og við skiljum það," segir Páll.

Hann segir að nokkur umræða hafi verið undanfarið um að hátíðin sé orðin of stór, en þjóðhátíðarnefnd hefur meðal annars reist umdeild varanleg mannvirki inn í Herjólfsdal.

„Það er þung umræða og var það sérstaklega hérna í sumar og fólk óttaðist þennan fjölda sem að var í fyrra. Við vorum með stóra hátíð í fyrra og með nýjum samgöngum bættist nýtt afl við og nú erum við fleiri. Og það verður að koma í ljós, við fáum ekki svör við spurningunum nema spyrja þeirra og við erum að gera það á þessari hátíð.

Ég held að við munum örugglega setjast niður eftir þessa hátíð og metum stöðuna, það er ekkert óhugsandi að fjöldatakmörkun verður færð niður í það horf að við ráðum örugglega við það. Við viljum ekki tefla hér á tvær hættur," segir Páll að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×