Fótbolti

Þjálfari Nígeríu segir afríska leikmenn missa einbeitinguna auðveldlega

Kolbeinn Tumi Daðason í Volgograd skrifar
Rohr á blaðamannafundinum í dag. Hann svaraði öllum spurningum á þokkalegri ensku.
Rohr á blaðamannafundinum í dag. Hann svaraði öllum spurningum á þokkalegri ensku. Vísir/Getty
Gernot Rohr, þýskur þjálfari nígeríska karlalandsliðsins í fótbolta, minnti endurtekið á hve ungt lið hann væri með í höndunum. Nítján ára pjakkur hafi verið valinn í markið vegna meiðsla og veikinda annarra markvarða. Kappinn, Francis Uzhoho, svaraði spurningum á blaðamannafundinum ásamt þeim þýska í dag

Fjallað hefur verið um það helsta sem fram kom á fundi þeirra í dag, eins og að Rohr eigi von á 20 þúsund íslenskum stuðningsmönnum en 250 frá Nígeríu. Vel gæti verið að hitinn hjálpaði Nígeríumönnum en margir þeirra spiluðu þó í Evrópu, í mildara loftslagi.

Eitt svar vakti athygli blaðamanns, svar við spurningu sem hann spurði sjálfur um meint rifrildi sem einhverjir leikmenn hefðu lent í við stuðningsmenn á samfélagsmiðlum eftir 2-0 tapið gegn Króatíu í fyrstu umferðinni.

„Maður heyrir svo margt á samfélagsmiðlum,“ sagði Rohr og nefndi meint ósætti sem tengdist varafyrirliða liðsins án þess að útskýra nánar. Í framhaldinu minnti hann á að leikurinn við Króatíu hefði verið jafn. Nígería hefði átt fleiri skot á markið og verið með boltann 47% leiksins.

Mörkin hefðu verið gjafir.

„Stundum þegar þú sérð mörkin á þessu móti eru þær hreinilega gjafir, víti eða eftir hornspyrnu. Afrískt fólk þarf að vinna í þessum atriðum mjög mikið, því það missir einbeitinguna. Í því þarf mitt unga lið að vinna og bæta.“

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×