Enski boltinn

Thierry Henry útlokar ekki að hann taki við af Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger.
Thierry Henry og Arsene Wenger. Vísir/Getty
Margir hafa séð Thierry Henry fyrir sér í knattspyrnustjórastól Arsenal í framtíðinni og orðrómurinn hefur vaxið í takt við óánægju stuðningsmanna með störf knattspyrnustjórans Arsene Wenger.

Thierry Henry er einn besti leikmaðurinn í sögu Arsenal, sá markahæsti frá upphafi og lykilmaður í síðasta meistaraliði liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Thierry Henry er orðinn 39 ára gamall og er í dag aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins en hann vinnur þar með landsliðsþjálfaranum Roberto Martínez.

Arsenal hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni auk þess að detta skammarlega út úr Meistaradeildinni 10-2 samanlagt á móti Bayern München.

Samningur Arsene Wenger rennur út í vor en ekkert fararsnið virðist vera á franska stjóranum þrátt fyrir háværar kröfur stórs hóps stuðningsmanna um það.

Thierry Henry lék í átta ár undir stjórn Arsene Wenger hjá Arsenel og Henry talar undir rós þegar kemur að hugleiðingum um framtíðarmöguleika hans hjá Arsenal.

„Þetta ræðst ekki á mér og það þarf að bera virðingu fyrir ákveðnum hlutum. Þetta er samt félagið sem á hjarta mitt,“ sagði Thierry Henry í viðtali á frönsku sjónvarpstöðinni Canal Plus en ESPN segir frá.

Þegar gengið var á hann um hvort hann sé maðurinn til að taka við af Wenger. „Ég veit það ekki,“ svaraði Henry en hann útilokar það ekki.

„Ég heyri nafnið mitt nefnt sem eftirmann Wenger. Það er bara erfitt fyrir mig að tala um þetta því ég ber svo mikla virðingu fyrir því sem Wenger hefur gert,“ sagði Henry.

„Er ég tilbúinn? Ég veit það ekki og það veit enginn. Ég þarf að læra inn á þetta starf. Ég hef engin ákveðin markmið í huga. Ég myndi elska að verða stjóri í framtíðinni en eins og er þá er ég ennþá að læra inn á þetta,“ sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×