Innlent

Þetta voru greinilega mistök hjá okkur

Leifur Grímsson segir að mistök hafi verið gerð með markaðssetningu á stelpu- og strákaísnum.
Leifur Grímsson segir að mistök hafi verið gerð með markaðssetningu á stelpu- og strákaísnum. fréttablaðið/arnþór
Fyrirtækið Emmess hefur hætt dreifingu á stelpu- og strákaís vegna harðra viðbragða almennings. „Þetta voru greinilega mistök hjá okkur að gera þetta því við höfum fengið mjög hörð viðbrögð,“ segir Leifur Grímsson, markaðsstjóri Emmess.

Auk stelpu- og strákaíssins, sem eru í bleikum og bláum umbúðum, fór Emmess af stað fyrir um viku síðan með mömmu- og pabbaís í von um að höfða til allra í fjölskyldunni með mismunandi bragðtegundum. „Smekkur fólks er svolítið mismunandi eftir kyni og aldri. Það er allavega tilfinningin sem við höfðum. Svo var gengið lengra með að setja þetta í þessa kyngreindu liti og það stuðar greinilega fólk,“ segir Leifur. Hann bendir á að önnur fyrirtæki hafi áður skipt vörum sínum í bleikt og blátt eins og Latibær.

„Þegar ég kynnti þetta fyrir innkaupastjórum þessa lands var þetta undantekningarlaust sögð frábær tilraun og skemmtileg. Síðan setur einhver mynd á netið og þá fer boltinn af stað.“

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir þessa tilraun Emmess hafa verið hlægilega. „Þarna er verið að ýta undir þessar staðalmyndir kynjanna. Þetta er sölubrella og það hefur verið vaxandi tilhneiging til að ýta undir muninn á strákum og stelpum,“ segir Kristín.

„Maður sér þetta mikið í þessum leikfangabæklingum, þennan bleika og bláa lit. Markaðurinn hefur bara tekið illa á móti svonalöguðu og fólk hefur mótmælt svona aðgreiningu kynjanna.“ - fb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×