Skoðun

Þekktu lyfin þín

Freyja Jónsdóttir skrifar
Vaxandi lyfjakostnaður hér á landi hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Minna hefur verið fjallað um mikilvægi þess að lyfjameðferðir séu réttar og að við nýtum lyfin eins vel og kostur er. Þjóðin er að eldast og lyfjanotkun mun halda áfram að aukast á næstu árum. Því verðum við að styðja betur við þá sem taka lyf og sérstaklega þá sem þurfa að reiða sig á lyfjameðferð til lengri tíma til að halda góðri heilsu.

 

Rannsóknir sýna glöggt að sjúklingar sem eru vel upplýstir um lyfin sem þeir taka eru líklegri til að geta þrifist og lifað með sínum sjúkdómi. Þeir eru jafnframt íklegri til að taka lyfin sín. Þannig getur fræðsla um lyf stuðlað að markvissari meðferð á sjúkdómum og um leið dregið úr sóun lyfja og óþarfa sóun skattpeninga. Rannsóknir hafa að auki sýnt að röng lyfjanotkun hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og er í mörgum tilfellum ástæða innlagnar á spítala. Á bráðamóttöku Landspítalans verða oft innlagnir sem hægt hefði verið að fyrirbyggja með aukinni fræðslu um lyf og markvissari stuðningi við sjúklinga í tengslum við lyfjamál. Sýnt hefur verið fram á að aðkoma lyfjafræðinga t.d. á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur, sem fræða sjúklinga og stuðla að markvissari lyfjanotkun þeirra, getur bætt heilsu umtalsvert og dregið úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.

 

Nýlega hefur verið innleitt nýtt verklag á bráðamóttöku Landspítalans þar sem lyfjafræðingar fara ítarlega yfir lyf sjúklinga við innlögn, veita þeim fræðslu, greina lyfjatengd vandamál og styðja við lækna og hjúkrunarfræðinga hvað varðar allt það sem viðkemur lyfjum. Þetta er gert með það að markmiði að bæta þjónustu við sjúklinga, auka öryggi og leitast við að tryggja betur að lyfjameðferð sé rétt.

 

Lyfjafræðingar á Landspítala hafa, í tilefni af alþjóðlegum degi lyfjafræðinga, ákveðið að hrinda af stað átaki undir yfirskriftinni „Þekktu lyfin þín“. Að mörgu er að hyggja. Mikilvægt er að vita uppp á hár við hverju lyfin sem þú tekur eru notuð, hvernig þau virka og hvenær og hvernig eigi að taka þau. Málin vandast þegar viðkomandi þarf að taka mörg lyf. Nauðsynlegt er að fólk nýti betur þá aðstoð sem býðst, s.s. aðstoð lyfjafræðinga. Aðgengi að lyfjafræðingum er gott því apótek eru víða, sum þeirra eru opin stóran hluta sólarhringsins og ekki er þörf á að panta tíma. Ætíð er hægt að óska eftir samtali við lyfjafræðinga í apótekum. Ef lyfjafræðingur telur þörf á að viðkomandi leiti læknis þá mun hann ráðleggja það.

 

Það er þjóðarhagur að stuðla að markvissari lyfjanotkun á Íslandi og til þess að ná því markmiði verða allir að leggjast á eitt - sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×