Innlent

Þarf að fara betur yfir frumvarp um fjölmiðla

Skúli Helgason.
Skúli Helgason.

Formaður menntamálanefndar Alþingis segir að enn þurfi að fara vel yfir ýmislegt í fjölmiðlafrumvarpinu. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að huga verði bæði að tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins, en Blaðamannafélag Íslands telur með ákvæði um friðhelgina sé of langt gengið.

Frumvarp til heildarlaga um fjölmiðla er nú í höndum menntamálanefndar Alþingis. Með frumvarpinu stendur meðal annars til að leiða í lög evróputilskipanir og samræma lög um ljósvakamiðla og prentmiðla; en fyrsta markmið þeirra er að stuðla að tjáningarfrelsi; eins og þar segir.

Fjölmargir hafa sent nefndinni umsagnir um málið; þar á meðal Blaðamannafélag Íslands sem gagnrýnir harðlega 26. grein frumvarpsins. Þar segir að fjölmiðlar skuli halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, virða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Blaðamannafélagið segir greinina fráleita og að hún hljóti að varða við ákvæði stjórnarskrár um frelsi til tjáningar. Sérstaklega er nefnt ákvæðið um friðhelgi einkalífsins.

Ákvæðið var sett inn í frumvarpið í kjölfar umsagnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Skrifstofan segir að ákvæðið í frumvarpinu nú sé samsvarandi ákvæði og nú sé að finna í útvarpslögum. Þau hafa verið í gildi í áratug. En í umsögn skrifstofunnar segir að fjölmiðlar verði að fara gætilega með upplýsingar sem geti raskað friðhelgi einkalífs fólks. Þó megi ekki skerða tjáningarfrelsið um of, eins og þar segir, þar sem það sé undirstaða lýðræðis. Það geti orðið erfitt, en fjölmiðlar verði að gæta að bæði tjáningarfrelsinu og friðhelgi einkalífsins. Því sé lagt til að friðhelgi einkalífsins verði nefnd sérstaklega í frumvarpinu.

Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar Alþingis, sagði við fréttamann í morgun að umfjöllun nefndarinnar um málið sé ekki lokið. Enn eigi eftir að fara vel yfir ýmis atriði; þetta þar á meðal.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×