Lífið

Þarf að byggja upp fjölskyldu í kvikmyndabransanum

vinna saman Dögg Mósesdóttir ásamt spænskum vini sínum, Lucas Laujedo, sem fer með aðalhlutverkið í stuttmyndinni.Fréttablaðið/stefán
vinna saman Dögg Mósesdóttir ásamt spænskum vini sínum, Lucas Laujedo, sem fer með aðalhlutverkið í stuttmyndinni.Fréttablaðið/stefán
Tökur á nýrri stuttmynd í leikstjórn Daggar Mósesdóttur hefjast von bráðar. Stuttmyndin sem um ræðir er ferðasaga og verður tekin upp á Snæfellsnesi, í Flatey og að hluta til á Brjánslæk og er handritið einnig skrifað af Dögg.

„Sagan fjallar um sígauna sem kemur til Íslands til að selja gagnslausar uppfinningar því hann hafði heyrt að hér keypti fólk hvað sem væri. Ung stúlka verður á vegi hans og þegar líður á myndina kemur í ljós að hún hefur strokið að heiman og skilið eftir sig blóði drifna slóð, ef svo má að orði komast,“ segir Dögg Mósesdóttir um nýja stuttmynd sína sem tekin verður innan tíðar. Spænskur vinur Daggar fer með hlutverk sígaunans og með hlutverk strokustúlkunnar fer ung söngkona frá heimabæ Daggar, Grundarfirði.

Þetta er níunda stuttmynd Daggar og jafnframt sú lengsta sem hún hefur gert hingað til og er hún öll tekin upp á Super 8 myndavél. „Ég ákvað að taka myndina upp á svona vél þar sem mér finnst skemmtileg áferð koma af þeim. Við erum komin með tvær svona Super 8 vélar, þannig ef ein bilar þá erum við með aðra til öryggis. Það er til fullt af þessum myndavélum út um allt, en mjög fáar sem virka og það getur verið erfitt að stilla hljóðið við myndina, en ég er bara svo veik fyrir áferðinni sem kemur af þessu.“

Aðspurð segist Dögg hafa fengið tíu manna tökulið með sér og er þetta í fyrsta sinn sem hún vinnur með alíslensku tökuliði.

„Ég hef mikið verið að vinna með skólafélögum mínum frá Spáni, en tökuliðið við þessa mynd er allt íslenskt. Ég var svolítið smeyk um að ég mundi hætta að vinna við kvikmyndir þegar ég kæmi heim frá Spáni þar sem allt fólkið mitt var úti. Maður þarf að byggja upp hálfgerða fjölskyldu í þessum bransa, ég hafði það úti, sem betur fer tókst mér að gera það í kringum þessa stuttmynd. Þegar maður vinnur með svona góðu fólki þá þarf maður ekki að reiða sig jafn mikið á fjármagn og er einhvern veginn frjálsari í listsköpuninni,“ segir Dögg. Aðspurð segist hún ekki viss um hvenær myndin komi fyrir sjónir almennings þar sem hún hafi aðeins haft efni á að kaupa filmu í vélina en hafi enn sem komið er ekki fjármagn til að framkalla hana. „Vonandi kemst hún einhvern tíma í sýningu,“ segir Dögg að lokum hlæjandi. sara@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×