Innlent

Þaklaust hús ergir íbúa í Fýlshólum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sé horft inn um stofugluggana í Fýlshólum 6 utan frá blasir himininn við enda hefur ekki verið þak á húsinu um árabil.  “kkur virðist ekkert koma það við, sem við búum í þessum húsum í götunni,” segir einn íbúanna í götunni um stöðu málsins.
Fréttablaðið/Stefán
Sé horft inn um stofugluggana í Fýlshólum 6 utan frá blasir himininn við enda hefur ekki verið þak á húsinu um árabil. “kkur virðist ekkert koma það við, sem við búum í þessum húsum í götunni,” segir einn íbúanna í götunni um stöðu málsins. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er bara ömurlegt, alveg hræðilegt,“ segir Kolbrún Sigurjónsdóttir, íbúi í Fýlshólum í Reykjavík, um langvarandi slæmt ásigkomulag eins einbýlishússins í götunni.

„Það eru allir mjög ósáttir við þetta og búnir að vera lengi. Það virðist ekkert hægt að gera,“ segir Kolbrún. Komið sé á þriðja ár frá því þakið var tekið af Fýlshólum 6. Í kringum páskana í fyrra hafi síðan mætt flokkur verkamanna og hafist handa við múrbrot inni í húsinu.

„Það sem ekki fauk út um alla götu og við máttum tína upp var sett í svarta plastpoka. Þeir eru þarna enn,“ segir Kolbrún. Lítið hafi verið aðhafst síðan. „Það kemur öðru hverju sendiferðabíll og tekur eitthvert dót sem virðist vera þarna inni.“

Kolbrún segir nágrannana hafa kvartað við lögregluna þegar krakkar voru farnir að venja komur sínar í húsið. „Þau spörkuðu bara upp hurðinni. Þetta var stórhættulegt því það er ekkert þak á húsinu og krakkarnir voru prílandi þarna upp um allt. Lögreglan gerði ekki neitt,“ segir Kolbrún.

Sambærileg viðbrögð kveður Kolbrún íbúana í Fýlshólum hafa fengið hjá Reykjavíkurborg. „Það var eins og þeim kæmi þetta bara ekkert við,“ segir hún. Engin svör fengust í gær frá borginni vegna málsins.

Frumbyggjar eru nú í þremur húsum í Fýlshólum. Kolbrún og eiginmaður eru meðal þeirra.

„Þetta hús var mjög fallegt á meðan það var og hét,“ segir Kolbrún um Fýlshóla 6. Hún viti ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið rætt við íbúa í götunni um framkvæmdirnar. Einn íbúanna hafi undir höndum teikningar sem sýni hvernig breyta eigi húsinu. Sjálf telji hún af og frá að hægt sé að gera breytingar á húsinu úr þessu. „Þetta hús er ónýtt. Það er búið að snjóa ofan í það og rigna í tvö ár.“

Fleiri íbúar í Fýlshólum en Kolbrún lýsa ástandinu sem slæmu. „Þetta hús er í tætlum,“ segir Díana Sveinbjörnsdóttir, sem kveðst ekki skilja af hverju yfirvöld setji ekki skilmála um frágang í slíkum tilfellum. „Þetta er skelfilegt bara, er bara eins og eyðibýli úti í sveit.“

Skráður eigandi Fýlshóla 6 í fasteignaskrá er einkahlutafélag sem heitir Hraunbrekka. Eigandi þess félags er Kristján Sigurður Sverrisson sem eignaðist húsið árið 1999.

Kristján segir hins vegar að dóttur­félag Seðlabankans, Hilda, eigi húsið og hafi keypt það á nauðungaruppboði í apríl á þessu ári.

„Við erum í samningum við þá um að kaupa þetta hús upp á að klára það. Þeir koma úr sumarfríi í byrjun ágúst,“ segir Kristján.

Aðspurður segir Kristján að til hafi staðið að endurbæta húsið. „Þakið var að fjúka af því. Við byrjuðum þarna framkvæmdir en urðum bara að stoppa og þetta hefur dregist úr hömlu.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×