Innlent

Telur villikettina hlunnfarna í lögum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Arndís segir fáa kosti í boði þegar kemur að velferð villikatta.
Arndís segir fáa kosti í boði þegar kemur að velferð villikatta. Fréttablaðið/Einar ólason
„Dýraverndarlögin eru í grunninn góð,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, hjá dýraverndunarfélaginu Villiköttum.

„Þar er margt vel unnið eins og með hesta og önnur húsdýr en þar er ekkert fjallað um villiketti,“ segir Arndís sem bendir á að velferð villikatta hafi ítrekað verið skilin út undan.

Fréttablaðið fjallaði á föstudag um álit heilbrigðiseftirlitsins þess efnis að Hafnarfjarðarbæ væri ráðið frá því að gelda villiketti í bænum.

Arndís undrast þessi vinnubrögð. „Mér þykir það mjög undarlegt að gefa út svona yfirlýsingu án þess að ráðfæra sig við stjórn okkar,“ segir hún. Hún segir að í raun séu fáir kostir í boði til að eiga við villiketti. Ef ekki eigi að láta þá í friði eða lóga þeim sé það langmannúðlegasta aðferðin að gelda þá.

Dýraverndunarfélagið Villikettir hefur lagt mikla vinnu í að hafa uppi á köttum og koma þeim í geldingu og koma munaðarlausum kettlingum fyrir á heimilum en í félaginu eru um 40 sjálfboðaliðar.

Hafnarfjarðarbær leitaði álits vegna beiðni Villikatta um að bærinn tæki upp stefnu félagsins. Í umsögn frá Kattavinafélagi Íslands kemur meðal annars fram stuðningur við stefnu Villikatta þar sem félagið stuðli að velferð katta.


Tengdar fréttir

Bærinn blandi sér ekki í geldingu villikatta

Heilbrigðiseftirlitið ræður Hafnarfjarðarbæ frá því að hafa aðkomu að og bera ábyrgð á geldingu villikatta sem áhugafélagið Villikettir vill grípa til svo halda megi stofninum í skefjum á mannúðlegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×