Innlent

Telur að Garðabær hafi gefið lóðir fyrir hundruð milljóna

Sveinn Arnarsson skrifar
Fara átti í miklar endurbætur á miðbæ Garðabæjar árið 2006.
Fara átti í miklar endurbætur á miðbæ Garðabæjar árið 2006. Vísir/Sigurjón
María Grétarsdóttir, bæjar­fulltrúi í Garðabæ, hefur sent inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna samninga Garðabæjar við Klasa ehf. um uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar.

Óskar María eftir því að samningar bæjarins við Klasa verði teknir til athugunar af umboðsmanni. Telur hún að bærinn hafi gefið Klasa lóðir án endurgjalds sem síðan hafi selt þær þriðja aðila og hagnast gríðarlega. Þetta sé að hennar mati slæm ráðstöfun á eigum Garðbæinga.

María Grétarsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ.
„Ég er kosin til sveitarstjórnar til að gæta hagsmuna Garðbæinga og það er skylda mín að láta kanna þetta mál ofan í kjölinn,“ segir María. „Hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða. Málið á sér langa sögu en nú sé ég mig knúna til að fara með málið til umboðsmanns Alþingis.“

Samningar Klasa við Garðabæ um uppbyggingu miðbæjarins voru undirritaðir fyrst árið 2006. Í efnahagshruninu árið 2008 er ákveðið að fresta framkvæmdum, breyta deiliskipulagi og minnka byggingarmagn á Garðatorgi. Klasi hafi þar með lóðakaupum greitt fyrir 25 þúsund fermetra byggingarrétt.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segist fagna því ef umboðsmaður ætli að skoða þetta mál. Ekkert í samningagerð Garðabæjar eigi hins vegar að gefa tilefni til þess. „Þetta er dæmalaus málflutningur og hefur margoft verið hrakinn,“ segir Gunnar. „Samningarnir eru allir opinberir og því er þetta hið besta mál.“

„Hið rétta er að Klasi keypti árið 2006 tvær lóðir á Garðatorgi og uppkaupsverðið var 1,2 milljarðar króna. Með því greiddi Klasi fyrir byggingarrétt á öðrum lóðum. Við hrunið og frestun framkvæmda hafi byggingarmagnið verið minnkað og því hafi Klasi átt inni byggingarrétt. Garðabær ráðstafaði þá byggingarrétti upp á þann mismun með úthlutun á fimm einbýlishúsalóðum sem var afar hagstæð ráðstöfun fyrir bæinn,“ bætir Gunnar við.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×