Innlent

Telur að forsætisráðherra hefði átt að ræða dagsetningu kosninga við þingflokkinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mun fara yfir ákvörðun sína og fjármálaráðherra um fastsetningu kjördags hinn 29. október á þingflokksfundi Framsóknarmanna á morgun.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins segir að það hefði verið æskilegt að forsætisráðherra hefði kynnt þessi áform í þingflokknum áður en þau voru gerð opinber á fundi með leiðtogum stjórnarandstöðunnar á fimmtudag.

„Menn hafa haft ýmsar skoðanir á því hvenær kosningar ættu að fara fram. Ég hef sjálfur verið í þessum hópi sem taldi að það lægi ekkert á en nú er þessi veruleiki kominn upp og þá tökum við það bara þannig og tökum málið þaðan,“ segir Þorsteinn í samtali við fréttastofu.

Alþingi kemur saman á morgun eftir stutt sumarleyfi en áður en þingfundur hefst kemur þingflokkur Framsóknarflokksins saman til fundar.

„Þar mun forsætisráðherra væntanlega fara yfir þetta mál og segja okkur frá því hvers vegna þeir töldu þetta nauðsynlegt. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, það er forsætisráðherra og fjármálaráðherra, hafa greinilega talið það að með því að setja dagsetningu fasta þá væri betri grundvöllur til samstarfs við stjórnarandstöðuna á þinginu og ég treysti þeirri dómgreind til þess.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×