Innlent

Taka þarf kynferðisbrotamál gegn börnum föstum tökum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá málþinginu á Hilton.
Frá málþinginu á Hilton. vísir/ernir
Nauðsynlegt er að efla samstarf á milli barnaverndarstarfsmanna, lögreglu, dómstóla og allra þeirra sem koma að málum barna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Skýra þarf hlutverk hvers aðila fyrir sig svo hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir að leiðarljósi. Þetta er á meðal þess sem fram kom í máli Anni Haugen, félagsráðgjafa og lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands á Barnaverndarþingi sem haldið var á Hilton í gær. Þá sagði hún að einblína þyrfti á sjónarmið barnsins og að undirstrika þyrfti mikilvægi þess að taka kynferðisofbeldismál gegn börnum föstum tökum.

Hrefna Friðriksdóttir, dósent í fjölskyldu og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, kynnti fræðsluefni um málsmeðferð réttarkerfisins í málum um kynferðisbrot gegn börnum sem kemur til með að líta dagsins ljós á næstu vikum.

Vitundarvakning í samvinnu við RÁS er nú að leggja lokahönd á fræðsluefni um kynferðislegt andlegt og líkamlegt ofbeldi en efnið var kynnt á málþinginu í gær. Markmið efnisins er að greina meginreglur samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, Lanzarote samningsins og leiðbeininga um barnvænlega réttarvörslu og draga fram þau atriði sem ber að hafa að leiðarljósi við meðferð réttarkerfisins á málum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Barnaverndarþing hófst í gær og lýkur í dag en þetta er í fyrsta sinn sem slík ráðstefna er haldin hér á landi. Barnaverndarstofa stendur fyrir málþinginu undir yfirskriftinni „Réttur til verndar, virkni og velferðar“ og vísar til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var hér á landi á síðasta ári. Ráðstefnan er öllum opin og hefur að markmiði að leiða saman fagstéttir og aðra sem tengjast  barnavernd í víðum skilningi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×