Innlent

Tælingarmál enda nær aldrei með ákæru

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ
Það sem einkennir tilkynningar um tilraunir manna til að tæla börn í bíl er að mjög takmarkaðar upplýsingar eru til staðar og rannsókn erfið viðureignar.

„Það er algjör undantekning ef það er eitthvað hægt að vinna með upplýsingar sem fást og ég man ekki í fljótu bragði eftir máli sem hefur leitt til ákæru,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í fyrradag reyndi maður í Kópavogi að tæla níu ára dreng upp í bíl. Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi segir litlar upplýsingar um málið til að vinna úr. „Almennt reynum við að kanna myndavélar í nágrenninu og förum í almenna upplýsingaöflun en því miður höfum við nú lítið í höndunum til að byggja rannsókn á.“

Erfitt er að búa til mynd af mönnum sem reyna að tæla börn í bíla enda hafa þeir verið lítið rannsakaðir þar sem þeir leita sér almennt ekki hjálpar vegna barnagirndar. Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félags- og afbrotafræði við Háskóla Íslands.

„Þetta er hneigð sem er svo dulin. Þar af leiðandi eru ekki til rannsóknir um þennan hóp manna, en það eru þó vísbendingar um að oft séu þeir félagslega einangraðir, einmitt kannski vegna þess að þeir eru haldnir þessari hneigð. Þeir vita að þetta er fordæmt af samfélaginu,“ segir Helgi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×