Fótbolti

Svona brást Hope Solo við fregnunum um bannið | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hope Solo leikur ekki fleiri landsleiki á næstunni.
Hope Solo leikur ekki fleiri landsleiki á næstunni. vísir/getty
Eins og fjallað var um á Vísi í síðustu viku var bandaríski landsliðsmarkvörðurinn Hope Solo dæmd í sex mánaða bann vegna ummæla sinna eftir leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar í 8-liða úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó.

Bandaríkin féllu úr leik í vítaspyrnukeppni og eftir leikinn lét Solo gamminn geysa í viðtölum og talaði um að sænska liðið væri samansafn af skræfum.

Í síðustu viku var svo greint frá því að Solo hefði verið dæmd í hálfs árs bann af bandaríska knattspyrnusambandinu. Þá var samningi hennar við bandaríska landsliðið einnig rift.

Solo tók þessum fregnum illa eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Þetta er brot úr væntanlegri sex þátta heimildamynd sem ber nafnið Keeping Score.

„Sex mánaða bann, engar greiðslur, samningnum rift án tafar,“ heyrist Solo segja um leið og hún faðmar eiginmann sinn, fyrrverandi NFL-leikmanninn Jerramy Stevens.

„Þetta er ekki bara bann heldur er samningnum líka rift. Þetta er kjaftæði. Sautján helvítis ár og þetta er búið.“

Sjá einnig: Baulað á Solo í Brasilíu

Solo, sem hefur verið einn besti markvörður heims um langt árabil, hefur verið dugleg að koma sér í fréttirnar fyrir atvik utan vallar. Þau höfðu einnig áhrif á hversu langt bannið sem hún fékk var.

Solo, sem er 35 ára, hefur leikið 202 landsleiki fyrir Bandaríkin. Hún varð Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu 2008 og 2012 og heimsmeistari í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×