Skoðun

Svar við svikabrigslum

Þórður Guðmundsson skrifar
Magnús Rannver Rafnsson hefur skrifað margar greinar í fjölmiðla undanfarið þar sem hann vandar mér ekki kveðjurnar og sakar mig ítrekað um spillingu og saknæmt athæfi. Í hans huga er ég í hópi fjölmargra annarra einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og jafnvel ráðherra sem allir virðast hafa tekið sig saman um að stöðva hann í hönnun umhverfisvænni háspennumastra.

Magnús hefur farið víða og taka skrif hans til fjölmargra atriða frá 2008 er Landsnet stóð fyrir samkeppni um háspennumöstur sem hefðu minni sjónræn áhrif. Innsendar tillögur voru 98 og þar af átti Magnús Rannver eina. Af þeim tillögum sem bárust voru 9 svonefnd spírugerð möstur, sambærileg því sem Magnús Rannver segir nú að sé hans hönnun og hann kynnir Landsneti 4 árum eftir samkeppnina. Sum þessara mastra frá samkeppninni 2008 eru býsna lík „lögvörðu“ mastri Magnúsar en hafa verður í huga að möstur af sambærilegri gerð hafa verið hönnuð út um allan heim í áratugi.

Magnús hefur látið að því liggja að ég hafi með saknæmum hætti beitt mér fyrir því að ARA Engineering var falið það verkefni að hanna það mastur sem hann hefur gagnrýnt hvað mest og vísar þá til þess að ég starfi á þeirri verkfræðistofu í dag. Samkvæmt málflutningi hans mætti ætla að þetta mastur skipti fyrirtækið miklu máli fjárhagslega. Hið sanna er að þetta verkefni er lítið að umfangi og því ekki sá fjárhagslegi ávinningur sem halda mætti af skrifum Magnúsar. Hann hefur einnig gert það tortryggilegt að Árni Björn Jónasson sé vinur minn og vinnuveitandi í dag og því hafi Landsnet á sínum tíma falið ARA Engineering þetta verkefni. Þetta eru staðlausir stafir.

Magnús hefur haldið því fram að hugmyndin að því mastri sem deilt er um sé frá honum komin árið 2012 og að hann hafi kynnt mér hana sama ár. Í sýndarveruleika Magnúsar kann þetta að virðast rétt, en raunveruleikinn er annar. Þegar í ársbyrjun 2007 kynnti verkfræðistofan Línuhönnun Landsneti spírumastur og í verkhönnunarskýrslu Línuhönnunar 2008 vegna fyrirhugaðra línubygginga suður á Reykjanesi er m.a. að finna það spírumastur sem Árni Björn Jónasson hannaði síðar, enda hann höfundur þeirrar tillögu. Þessi gerð masturs hafði því verið í þróun í rúm 6 ár áður en Magnús Rannver kom til sögunnar. Hugmynd Árna Björns var því kynnt Landsneti ári fyrir margumrædda samkeppni og sex árum áður en Magnús segist hafa komið með sína tillögu! Þetta veit Magnús.

Stóð ekki við samning

Magnús hefur ítrekað sagt að Línudans hafi gert samning við Landsnet um hönnun masturs, samning sem nú sé verið að brjóta. Í sýndarveruleika Magnúsar er þetta eflaust svo, en ekki í raunveruleikanum. Ég minnist þess að hafa gert samning við hann (Cooperation Agreement) um að Landsnet veitti Línudansi aðstoð við prófanir og byggingu á mastri úr trefjaefni sem Línudans ætlaði að ráðast í hönnun á. Verkefnið var ekki um að Línudans skyldi hanna mastur eða möstur fyrir Landsnet. Í samningnum segir að aðilar skuli hittast á hálfs árs fresti. Um ári eftir að samningurinn var undirritaður óskaði ég eftir að kannað yrði hvort verkefnið væri komið af stað, en ekki fengust nein svör frá Magnúsi. Samningurinn var til sex ára, þannig að tvö ár eru eftir. Því spyr ég nú: Magnús, er ekki kominn tími til að ræsa verkefnið, sýna spilin og standa við öll stóru orðin?

Magnús hefur kært Árna Björn Jónasson til siðanefndar Verkfræðingafélagsins og Samkeppnisstofnunar sem vísuðu kæru hans frá. Hann hefur sakað ráðherra um að styðja sig ekki. Hann hefur ásakað mig og starfsmenn Landsnets um spillingu. Svo virðist sem í huga Magnúsar sé eitt allsherjar samsæri í gangi. Eftir um 4 ára sögu hefði ég vænst þess að eitthvað nýtt og bitastætt lægi fyrir eftir Magnús um þróun þessa verkefnis en svo er ekki. Mér þykja greinarskrif hans undanfarið með ólíkindum. Sé hann virkilega þeirrar skoðunar að um sé að ræða allsherjar svika- og spillingarsamsæri, þar sem ég kem við sögu, þá hvet ég hann til að fara með málið fyrir dómstóla sem er rétta leiðin til að útkljá jafn alvarlegt mál sem þetta, frekar en endurteknar dylgjur eins og og hann hefur birt í fjölmiðlum. Einnig myndi ég hvetja hann til að leita allra leiða til að kæra hina væntu spillingu, hvar sem hann getur komið því við, þar sem ég hygg að við báðir séum sammála um að það er grafalvarlegt mál ef spilling kemur hér einhvers staðar við sögu.

Að lokum þetta Magnús Rannver. Ég hef aldrei á minni starfsævi kynnst jafn rætnum, persónulegum og illgjörnum skrifum og þínum undanfarin ár. Þetta verður eina skiptið sem ég svara þér á opinberum vettvangi.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×