Innlent

Sumarbyrjun áfram köld og vindasöm

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Veðrið virðist ekki hafa fengið þau skilaboð að sumarið sé hafið hér á landi.
Veðrið virðist ekki hafa fengið þau skilaboð að sumarið sé hafið hér á landi. Mynd/Veðurstofa Íslands
Ekki er útlit fyrir að Íslendingar geti brugðið sér í stuttbuxur og sandala á næstunni en veðurspáin næstu vikuna gerir ráð fyrir hvassviðri og hita við frostmark. Þetta er niðurstaða veðurspár Veðurstofu Íslands fyrir næstu viku.

Sólin mun þó láta sjá sig í hvassviðrinu á miðvikudag og fimmtudag á Suðurlandi. Norðlendingar mega búast við áframhaldandi sumarsnjó. Með helginni virðist vindinn lægja en þá kólnar í veðri á Norðurlandi en þar kemur hitinn til með að fara allt niður í -7 gráður á celsíus. Á Suðurlandi hins vegar gægist hann rétt yfir frostmark.

Það er því engin ástæða fyrir Íslendinga, hvar á landinu sem þeir dvelja, að leggja dúnúlpunni enn. Þó má leggja grunn að sumarbrúnkunni í vikunni með því að gerast tíður gestur í sundlaugum landsins og flatmaga þar í heitum pottum.

Hér má sjá spánna frá Veðurstofu Íslands fyrir næstu daga:

Norðan og norðvestan 10-18 m/s en 15-23 m/s á Austfjörðum og austan Öræfa. Snjókoma og skafrenningur N- og A-lands, en annars skýjað með köflum eða léttskýjað. Frost 1 til 11 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan, en frostlaust syðst að deginum.



Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Norðan og síðar norðaustan 13-20 m/s, hvassast með NA-ströndinni. Snjókoma eða éljagangur N- og A-lands, en annars bjartviðri. Dregur úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Frost víða 0 til 8 stig, en frostlaust S-lands að deginum. 

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-13 m/s og skýjað með köflum. Lítilsháttar slydduél syðst, en él með N- og A-ströndinni. Frost 0 til 5 stig en hiti 0 til 4 stig SV-til yfir daginn. 

Á fimmtudag og föstudag:

Útlit fyrir austlæga eða breytileg átt, dálítil él víða á landinu, síst þó norðaustantil. Áfram svalt í veðri.

Á laugardag:

Útlit fyrir hægt vaxandi suðaustanátt með slyddu eða snjókomu SV-til en bjartviðri annars staðar. Hiti breytist lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×