Fótbolti

Suárez: Enska deildin er sú besta í heimi en Barcelona er besta liðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez var frábær með Barcelona á síðustu leiktíð.
Luis Suárez var frábær með Barcelona á síðustu leiktíð. vísir/getty
Luis Suárez, framherji Spánarmeistara Barcelona, segir ensku úrvalsdeildina þá bestu í heimi en Barcelona er besta liðið. Erfitt að mótmæla því enda vann liðið þrennuna á síðasta ímabili.

Úrúgvæinn dvaldi í þrjú og hálft ár á Englandi með Liverpool þar sem hann var kjörinn leikmaður ársins áður en hann gekk í raðir Börsunga síðasta sumar.

Hann segist elska lífið í Katalóníu en vonast til að enda ferilinn heima í Úrúgvæ hjá liðinu sem stendur næst hjarta hans.

„Ég myndi vilja leggja skóna á hilluna sem leikmaður Nacional, liðsins sem ég elska,“ segir Suárez í viðtali við ESPN Deportes Radio.

„En ég myndi líka vilja spila fyrir Ajax aftur,“ bætir Suárez við. Hann reis til frægðar í Evrópu hjá Ajax þar sem hann varð Hollandsmeistari fyrir fjórum árum.

Framherjinn öflugi sér líka fram á að spila í Bandaríkjunum einn daginn þar sem fótboltinn er alltaf að vaxa og dafna þar.

„Það væri ekki slæmur kostur að spila í MLS-deildinni. Bandaríkin elska fótbolta og þar er spilað núna fyrir fullum völlum,“ segir hann.

„Enska úrvalsdeildin er samt sú besta í heimi, en Barcelona er besta liðið. Við höfum okkar markmið fyrir tímabilið. Við viljum vera fyrsta liðið sem ver Meistaradeildartitilinn,“ segir Luis Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×