Innlent

Styðja fatlaða vinkonu til ferðalaga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Jóna Jónsdóttir ásamt vinkonu sinni í Svíþjóð.
Guðrún Jóna Jónsdóttir ásamt vinkonu sinni í Svíþjóð.
Vinir Guðrúnar Jónu Jónsdóttur eru um þessar mundir að safna fé fyrir hana þannig að henni gefist kostur á því að ferðast til útlanda. Guðrún Jóna, eða Gugga eins og hún er oft kölluð, varð fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur árið 1993. Þá var hún fimmtán ára gömul. Alla tíð síðan hefur hún verið mikið fötluð og bundin við hjólastól.

Fyrir nokkrum árum tóku vinir hennar sig saman og hófu að safna til að gefa Guggu kost á að ferðast til útlanda. Slíkt er hvorki ódýrt né einfalt því Guðrún þarf tvo aðstoðarmenn á ferðalögum. Með mikilli elju og framlögum frá góðu fólki hefur tekist að láta draum Guggu um ferðalög rætast.

„Ég gæti aldrei ferðast nema vegna þessa stuðnings. Þessar ferðir hafa verið mér ótrúlega mikilvægar og eftirminnilegar. Eftirminnilegasta ferðin var þegar ég sá Madonnu, uppáhalds söngkonuna mína, á tónleikum í Lundúnum fyrir tveimur árum. Það var alveg ótrúlegt. Ég var í svo miklu tilfinningasjokki að ég grét allan tímann af gleði. Í sumar hefur stefnan verið sett á  Chicago til að fara á U2 tónleika. Það verður örugglega alveg frábært þó ég efist nú um að þeir toppi tilfinninguna að sjá Madonnu,“ segir Gugga vegna söfnunarinnar.

Fyrirhugað ferðalag Guggu til Chicago verður það lengsta til þessa. Það kostar töluverða peninga að láta dæmið ganga upp og vinir Guggu hafa því sett upp sérstaka söfnunarsíðu fyrir ferðasjóð Guggu á Facebook. Þar er hægt að lýsa stuðningi við málefnið og einnig er tekið við framlögum, hversu smá sem þau eru, á söfnunarreikning Ferðasjóðs Guggu 515-14-405952  Kt. 520511-0910.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×