Fótbolti

Strákarnir mættir til Parma og æfa á sögufrægum velli borgarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir á æfingu í Parma.
Strákarnir á æfingu í Parma. mynd/ksí
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur hafið undirbúning sinn fyrir mikilvægan leik gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018 en hann fer fram í albönsku borginni Shkodër á föstudagskvöldið.

Landsliðið kom saman hér ytra í gær og hafði á hinum sögufræga Stadio Ennio Tardini, einum elsta knattspyrnuleikvangi Ítalíu sem enn er í notkun, í gær. Eins mun liðið æfa þar í hádeginu í dag og á morgun, en halda svo til Albaníu annað kvöld.

Íþróttadeild 365 er í Parma og mun flytja fréttir af íslenska landsliðinu á Vísi, Stöð 2, Bylgjunni og Fréttablaðinu.

Landsliðið undirbjó sig einnig í Parma fyrir leik liðsins gegn Króatíu í haust en hér í borg er íþróttavöruframleiðandinn Errea með höfuðstöðvar sínar, en allar treyjur íslensku landsliðanna eru framleiddar af Errea.

Fram kemur á vef KSÍ að fulltrúar Errea hafi verið íslenska landsliðinu innan handar með skipulag og afþreyingu á meðan dvölinni hér stendur, allt til að gera dvöl strákanna okkar sem ánægjulegasta.

Þó nokkur forföll hafa verið í íslenska landsliðinu vegna meiðsla og verður því forvitnilegt að sjá hvernig Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, mun stilla upp liði sínu í leiknum á föstudag.

Ísland er í þriðja sæti I-riðils í undankeppninni með sjö stig að loknum fjórum leikjum. Kósóvó er hins vegar í neðsta sætinu með eitt stig, rétt eins og Finnland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×