Innlent

Stórtækt þjófagengi stöðvað - mikið magn þýfis haldlagt

Suðurnes
Suðurnes
Þjófagengi var stöðvað af lögreglunni á Suðurnesjum í dag. Var mikið magn þýfis haldlagt. Tveir karlmenn á fertugs- og fimmtugsaldri voru handteknir og hafa sætt gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum fannst þýfi úr tveimur innbrotum í Reykjanesbæ í tveimur bifreiðum mannanna. Um er að ræða fjórhjól og verkfæri.

Vegna rannsóknarhagsmuna krafðist lögreglustjórinn á Suðurnesjum þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness fyrr í mánuðinum að mennirnir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald og varð dómari við þeirri kröfu. Mennirnir eru nú báðir lausir úr haldi.

Umfangsmiklar húsleitir voru gerðar íbúðahúsnæði, verkstæðis- og geymsluhúsnæði og bifreiðum sem mennirnir höfðu til umræða. Auk þess var lögreglan á Sauðárkróki fengin til aðstoðar varðandi leitir á tveimur stöðum í Skagafirði. Rannsókn leiddi í ljós að þýfi hafði verið flutt þangað til geymslu.

Hald hefur verið lagt á ýmis konar tæki og muni vegna rannsóknar málsins svo sem tvö fjórhjól, bílalyftu, fjórar kerrur, hjólbarða, felgur, verkfæri, skráningarnúmer af ökutækjum, nokkurn fjölda bílageislaspilara og fleira. Lögregla vinnur að skoðun fjölda annarra haldlagðra muna. Má ætla að málið varði að minnsta kosti átta mál á Suðurnesjum og á höfðuborgarsvæðinu. Um er að ræða innbrot og þjófnaði, fjárdrátt, skjalafals og nytjastuld.

Nokkrir hafa verið yfirheyrðir vegna tengsla við málið auk þeirra tveggja sem handteknir voru í upphafi.

Rannsókn málsins stendur enn yfir hjá lögreglunni á Suðurnesjum en grunur leikur á að annar hinna handteknu hafi verið afkastamikill þýfissali og jafnvel er talið að hann hafi selt þýfi úr landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×