Enski boltinn

Stóri Sam segist iðrast gjörða sinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.
Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu. vísir/getty
Eins og fram kom á Vísi fyrir skemmstu er Sam Allardyce hættur sem þjálfari enska landsliðsins í fótbolta. Allardyce entist aðeins 67 daga í draumastarfinu.

Í gær birti The Telegraph myndband þar sem Allardyce samþykkir 400.000 punda greiðslu fyrir að aðstoða austurlenska viðskiptajöfra við að fara á sveig við reglur enska knattspyrnusambandsins.

Í tilkynningu enska knattspyrnusambandsins, þar sem greint er frá starfslokum Allardyce, kemur fram að framferði hans hafi ekki verið þjálfara Englands sæmandi.

„Hann veit að hann gerði mistök og hefur beðist afsökunar. En í ljósi alvarleika málsins hafa enska knattspyrnusambandið og Allardyce komist að samkomulagi um að rifta samningnum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun að taka en forgangsverkefni enska knattspyrnusambandsins er að verja hagsmuni leiksins.“

Stóri Sam sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist iðrast gjörða sinna.

„Í ljósi liðanna atburða hafa ég og enska knattspyrnusambandið komist að samkomulagi um að slíta samstarfinu,“ segir Allardyce.

„Það var mér mikill heiður að vera ráðinn landsliðsþjálfari og ég er mjög vonsvikinn með niðurstöðu málsins. Síðdegis fundaði ég með Greg Clarke og Martin Glenn og baðst innilega afsökunar á framferði mínu.

„Þótt það hafi komið skýrt fram á upptökunum að allar tillögu þörfnuðust samþykkis enska knattspyrnusambandsins viðurkenni ég að sumt af því sem ég sagði var óviðeigandi.

„Á fundinum í dag var ég beðinn um að útskýra orð mín og í hvaða samhengi samræðurnar áttu sér stað. Ég hef verið mjög samvinnuþýður.

„Ég sé einnig eftir ummælum mínum um aðra einstaklinga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×