Innlent

Stóraukið öryggi í raforkumálum Vestfirðinga

Heimir Már Pétursson skrifar
Öryggi íbúa á norðanverðum Vestfjörðum í raforkumálum jókst til muna í gær þegar vígð var ný og öflug varaaflsstöð í Bolungarvík. Vestfirðingar sem oft eru einangraðir yfir verstu vetrarmánuðina hafa um árabil búið við mikið óöryggi  hvað varðar raforku.

Þetta er vel þekkt vandamál á norðanverðum Vestfjörðum; rafmagnið farið af og lítið um tryggt varaafl. Oftar en ekki gerist þetta í vonskuveðrum þegar hætta er á ferðum vegna snjóflóða og annarra hamfara og öryggi íbúana því verulega skert. En eftir að ný og öflug varaflsstöð var tekin formlega í notkun í gær, mun rafmagnið koma fljótlega aftur og öryggi íbúanna því mun meira en áður, eins og komið hefur fram á æfingum.

Það var því glatt á hjalla þegar iðnaðarráðherra, bæjarstjórar og fleiri voru viðstödd formlega gangsetningu varaflsstöðvarinnar í gær.

„Það má kannski segja með þessa stöð hérna að fall sé fararheill. Því við ætluðum að vígja þetta fyrir áramót, um það bil sem hún var tekin í notkun. En það tókst ekki og við urðum að fresta því vegna veðurs,“ sagði Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets við athöfnina í Bolungarvík í gær.

Kristján Haraldsson forstjóri Orkubús Vestfjarða sagði þessa varaaflsstöð mjög mikilvæga fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.

„Með nýjum aðveitustöðvum á Ísafirði og í Bolungarvík og þessari varaaflsstöð hér og hinu svo kallaða snjallneti, hefur hreinlega orðið bylting. Á norðaverðum Vestfjörðum munum við í framtíðinni ekki búa við langvarandi rafmagnsleysi.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra fagnaði með Vestfirðingum.

„Mér er það mjög mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag. Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem við erum hér að fagna áföngum í afhendingaröryggi og raforkuöryggi Vestfjarða og það er ákaflega gleðilegt að fá að vera þátttakandi í því,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×