Skoðun

Stoltur leikskólakennari

Sveinlaug Sigurðardóttir skrifar
Um daginn þegar ég var úti að djamma, þá rakst ég á gamlan skólafélaga úr grunnskóla. Það er svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað, að við heilsumst og förum að spjalla – þið vitið, þetta klassíska þegar maður hefur ekki hitt manneskjuna síðustu 10 árin.

Hvað er að frétta af þér, spyr ég.   Og hann spyr á móti: Hvað ert þú að gera í lífinu

„Ég er kennari - leikskólakennari," svaraði ég. Alltaf þegar ég segi fólki að ég sé leikskólakennari, þá fyllist ég stolti. Þegar ég var lítil ætlaði ég að verða söngkona, leikkona og dýralæknir. Eins og við allar, stelpurnar í bekknum. Kennarar mínir í grunnskóla sögðu oft við mig að ég yrði ábyggilega kennari. „Iss“ sagði ég, „það er ekki séns.“

Þegar ég varð eldri ætlaði ég að verða læknir. Og alveg fram yfir tvítugt var það stefnan. Eftir stúdent fór ég svo að vinna í leikskóla, þar sem ég hafði alltaf haft svo gott lag á börnum, verið að passa sem unglingur og svona. En þar uppgötvaði ég hversu gaman mér fannst að vinna með börnum. Og ég fór að íhuga að verða kannski bara barnalæknir, vinna kannski á barnaspítalanum...

Ég kíkti svo á háskólakynningu og komst að því að mér fannst læknanámið ekkert spennandi. En hvað með hjúkrunarfræði, hugsaði ég. Ég gæti kannski orðið hjúkrunarfræðingur á barnaspítalanum.

Eftir nokkra umhugsun ákvað ég svo að skoða leikskólakennaranámið og þá áttaði ég mig á því að þangað átti ég að sjálfsögðu að fara! Mér fannst svo gaman í vinnunni í leikskólanum að mig langaði helst ekki að hætta! Starfið var svo skemmtilegt. Börnin yndisleg og óutreiknanleg. Dagarnir ólíkir og starfið svo fjölbreytt.

Já, af hverju ekki! Tja, launin voru ekkert til að hrópa húrra fyrir - og eru það svo sem ekki heldur í dag - en mér fannst vinnan skemmtileg og það var það sem skipti máli.

Á þessum tíma, en þetta var árið 2003, þá var ég ítrekað spurð að því hvers vegna í ósköpunum ég ætlaði að verða leikskólakennari. Hvernig ætlaði ég eiginlega að geta lifað á laununum? Og ég veit ekki hversu oft ég svaraði fólki: „Af því að mér finnst gaman að vinna í  leikskóla. Ég vil frekar hafa minna á milli handanna og finnast skemmtilegt í vinnunni.“

(„Svo tek ég bara þátt í að berjast fyrir hærri launum í leiðinni“, sagði ég líka – og það geri ég reyndar ennþá í dag, en það er önnur saga og efni í annan pistil.)

En málið er sem sagt það, að mér finnst ennþá skemmtilegt í vinnunni, og eiginlega skemmtilegra en mér fannst áður en ég varð leikskólakennari. Því meira sem ég veit um þroska barna, nám þeirra og menntun, því skemmtilegra verður starfið. Því meira sem ég læri af faglegum vinnubrögðum og því meiri þekkingu sem ég viða að mér, þeim mun betur nýt ég mín í starfinu. Því meiri reynslu sem ég öðlast því betri kennari verð ég og þeim mun þýðingarmeira verður starfið.

Að vera leikskólakennari getur auðvitað verið krefjandi og ögrandi, en það er líka það sem er skemmtilegt við það. Að fá að takast á við áskoranir á hverjum degi. Að upplifa eitthvað nýtt og óvænt á hverjum degi. Að gefa af sér. Að skipta máli í lífi einhvers barns. Að finna að maður er mikilvægur.

Mér finnst alltaf jafn gaman að segja sögur úr starfinu mínu og í vikunni átti ég stutt samtal við einn 4 ára dreng á deildinni minni. Hann mætti í leikskólann, eins og venjulega, vinkaði pabba sínum í glugganum og settist svo við morgunverðarborðið hjá mér. Ég sá að hann var að hugsa. Eftir dágóða stund segir hann við mig: „Mamma mín var pirruð. Hún var stressuð út í pabba minn“.

Þessi drengur á góða foreldra og býr á góðu heimili þar sem daglegt líf er líklega bara svipað og hjá okkur hinum. Dagarnir eru misgóðir og fjölskyldan er mis vel stemmd.

En þessi setning hans sat svolítið í mér. Hún fékk mig til að hugsa um mikilvægi mitt sem kennarans hans. Þarna mætir þessi litli snáði með höfuðið fullt af hugsunum og hjartað fullt af tilfinningum og ég er manneskjan sem hann langar að deila því með. Ég stend honum það nærri að hann treystir mér fyrir þessum tilfinningum sínum og þessum hugsunum um lífið og tilveruna. Þetta voru ekki mörg orð en þau voru honum eflaust mjög mikilvæg. Og að ég skyldi vera á staðnum, tilbúin til að hlusta á hann og spjalla um málið, hafði mikla þýðingu fyrir hann. Og líka fyrir mig.

En þetta er bara pínulítið dæmi úr starfi mínu sem leikskólakennari. Ég, ásamt öllum hinum leikskólakennurunum, gætum eflaust komið með mörg hundruð svona litlar sögur sem minna okkur á mikilvægi þess starfs sem við vinnum í leikskólunum. Hvað einn kennari getur skipt miklu máli í lífi barns. Hvað við í raun og veru gefum mikið af okkur og hvað við fáum mikið til baka.

Ég veit fátt skemmtilegra en að sjá börnin í leikskólanum taka framförum. Sjá hvernig þeim tekst að gera betur en í gær,  með dyggri aðstoð kennaranna og vina sinna. Það er gefandi að eiga samtal við 5 ára barn um sólina og himininn, hvað verður um okkur þegar við deyjum og hvernig maður á að vera góður vinur. Og það er gefandi að hjálpa barninu að læra að setja teygjuna undir stígvélin.

Allt er þetta hluti af því frábæra starfi sem leikskólakennarar vinna. Að gefa af sér og fá til baka óendanlegt traust og umhyggju frá börnunum. Ég velti því fyrir mér í hvaða starfi maður fær betri móttökur en í leikskólanum á morgnana: Börnin kalla: „ Sveinlaug er komin“ og svo fær maður nokkur knús.

Og já, svo ég snúi mér nú aftur að sögunni um gamla skólafélagann sem ég hitti á djamminu og spurði mig hvað ég væri að gera í lífinu.

„Ég er kennari“, svaraði ég – „leikskólakennari.“

„ Já, ok“, svaraði hann og varð hugsi. „Ég hefði alltaf haldið að það yrði eitthvað meira úr þér.  Æ, þú veist, eitthvað merkilegra, læknir eða eitthvað svoleiðis. Þú sem varst alltaf svo klár í skóla“.

Og án þess að hugsa kom þetta svar frá mér:

„Er hægt að verða eitthvað meira og merkilegra en kennari?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×