Innlent

Stöðvast fiskveiðar í nóvember?

Ásgeir Erlendsson skrifar
Fiskveiðar gætu stöðvast um miðjan nóvember, samþykki sjómenn sameiginlega verkfallsboðun sem er í undirbúningi. Formaður Sjómannafélags Íslands segir sjómenn til í slaginn og allt stefna í átök.

Í ágúst samþykktu skipstjórnarmenn kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi en á sama tíma felldu félagsmenn Sjómannasambandsins sinn samning. Viðræður hafa staðir yfir undanfarnar vikur og í gær hafnaði SFS samningstilboði sjómanna.

Sameiginleg verkfallsboðun

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir sjómenn ekki sátta og nú sé þolinmæðin á þrotum.

„Sameiginleg verkfallsboðun er í pípunum. Við stefnum að því að vera í verkfalli, ef ekki semst, einhverntíman í nóvembermánuði.“

Samningar sjómanna hafa verið lausir frá árinu 2011 og nú hefur Sjómannafélag Íslands, Sjómannasambandið, Verkalýðsfélag vestfirðinga auk Félags vélstjóra og málmtæknimanna tekið höndum saman.

Fiskveiðar munu stöðvast

„Félögin eru að fara í þessa vegferð núna, láta félagsmenn félaganna greiða atkvæði um verkfall ákveðinn dag.“



Hann segir að verkfallið muni hafa víðtækar afleiðingar.

„Það stoppar stærstu gjaldeyrisöflunina sem er sala á fiskafurðum. Fiskveiðar stoppa sama dag og verkfallið skellur á.“ Segir Jónas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×