Íslenski boltinn

Stjörnurnar í Garðabænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan endurheimti Íslandsmeistaratitilinn.
Stjarnan endurheimti Íslandsmeistaratitilinn. vísir/eyþór
Eftir stutt stopp í Kópavoginum er Íslandsbikarinn kominn aftur í Garðabæinn.

Stjarnan náði í mikilvægt stig gegn Breiðabliki í 16. umferð og eftir það voru Garðbæingar með örlögin í eigin höndum og þurftu bara að vinna KR og FH í síðustu tveimur umferðunum til að tryggja sér titilinn. Og það hafðist, Stjarnan kláraði sína leiki með stæl, vann KR 0-3 í næstsíðustu umferðinni og FH 4-0 í gær.

„Þetta er alltaf jafn geggjað og ég er gríðarlega stolt af stelpunum eftir leikinn í dag,“ sagði Harpa Þorsteinsdóttir, markahæsti og besti leikmaður Pepsídeildarinnar 2016, í samtali við Fréttablaðið í gær. Hún lék ekki með Stjörnunni í síðustu tveimur leikjunum þar sem hún er barnshafandi eins og frægt er orðið. Harpa var þó búin að gera sitt en hún skoraði 20 mörk í fyrstu 16 leikjum tímabilsins.

Margar hetjur

Hetjurnar í Stjörnuliðinu eru fleiri. Hin tvítuga Berglind Hrund Jónasdóttir fyllti skarðið sem Sandra Sigurðardóttir skildi eftir sig í markinu með glæsibrag; fékk aðeins 10 mörk á sig í 17 leikjum og hélt marki sínu níu sinnum hreinu. Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að Berglind hafi sannað að hún var traustsins verð.

„Berglind stóð sig vel í vorleikjunum og sýndi að hún ætlaði sér að taka stöðuna. Það var engin spurning að hún fengi traustið og hún stóð sig frábærlega í sumar,“ sagði Ólafur sem tókst að fylla fleiri skörð í liði Stjörnunnar en talsverðar breytingar urðu á liðinu í vetur. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Donna Kay Henry og Katrín Ásbjörnsdóttir komu allar fyrir tímabilið og léttu undir með Hörpu í sóknarleiknum. Katrín var t.a.m. frábær í leiknum gegn FH þar sem hún skoraði tvö mörk og lagði hin tvö upp.

Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir lyfti Íslandsbikarnum í leikslok en þessi mikli sigurvegari hefur átt risastóran þátt í uppgangi Stjörnunnar á undanförnum árum og er hjartað í liði Garðbæinga.

„Við settum okkur þetta markmið 13. september í fyrra, eftir að Breiðablik hafði tryggt sér titilinn. Karakterinn sem við sýndum á köflum í sumar hefur verið með ólíkindum. Ég er bara ótrúlega stolt og ég get varla lýst því hvernig er að vera fyrirliði í svona liði,“ sagði Ásgerður í leikslok í gær.

Selfoss fór niður

Það var einnig barist á hinum enda töflunnar í lokaumferðinni í gær. KR var í verstu stöðunni fyrir umferðina en tryggði sér áframhaldandi sæti í Pepsídeildinni með ævintýralegum 2-3 sigri á botnliði ÍA.

Á sama tíma gerðu Fylkir og Selfoss markalaust jafntefli en það var hlutskipti síðarnefnda liðsins að fylgja Skagakonum niður í 1. deild. Þetta er mikið áfall fyrir Selfoss sem endaði í 3. sæti Pepsídeildarinnar í fyrra og komst í bikarúrslit 2014 og 2015.

Þá gerðu ÍBV og Þór/KA 3-3 jafntefli í miklum markaleik og Valur vann 1-0 sigur á Breiðabliki. Þetta var fyrsta tap Blika í deildarleik frá 22. júlí 2014.


Tengdar fréttir

Harpa: Er að upplifa allan tilfinningaskalann

"Ég er fegin, þakklát og allt þarna á tilfinningaskalanum,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi-deild kvenna árið 2016. Liðið vann FH 4-0 á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×