Innlent

Stjórnmálafræðingur: Fylgi Lilju ekki fast í hendi

Stjórnmálafræðingur segir fylgi við flokk Lilju Mósesdóttur í nýrri könnun ekki vera fast í hendi og sögulega hafi nýir flokkar oft fengið mikið fylgi í upphafi. Þá hafi Björt Framtíð ekki aðgreint sig nægilega frá öðrum flokkum og tapar á tengingu við Besta Flokkinn.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar tvö sem birt var í morgun mælist Sjálfstæðisflokkur með 35 prósenta fylgi og nýr flokkur Lilju Mósesdóttur með meira en stjórnarflokkarnir tveir til samans.

„Í gegnum söguna höfum við þó haft dæmi um það að ný framboð hafa oft í byrjun fengið fljúgandi start í skoðanakönnunum, til dæmis framboð Jóhönnu Sigurðardóttur, Þjóðvaka, sem mældist með svipað í skoðana könnunum fyrst," segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.

Þetta fylgi við Samstöðu er hins vegar ekki fast í hendi.

„Hún og hennar stuðningsmenn höfðu kynnt drög að stefnuskrá og svo á í umræðunni eftir að reyna á hvort að þau sjónarmið sem hún stendur fyrir, standi og það á ýmislegt eftir að koma í ljós framhaldinu," segir hún.

Nýr flokkur Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins, Björt Framtíð, fær einungis um sex prósenta fylgi í könnuninni sem hljóti að vera vonbrigði að mati Stefaníu.

„Vandi hans er sá að hann hefur ekki náð að aðgreina sig neitt frá stefnu Samfylkingarinnar, hann segist ekki hafa kynnt stefnumálin og það er alveg rétt, flokkurinn hefur kynnt nafn en enn er auglýst eftir stefnu. Svo virðist vera sem helst bakland þess flokks sé besti flokkurinn í Reykjavík og hann hefur heldur verið að tala í vinsældum síðasta árið," segir Stefanía að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×