Íslenski boltinn

Stjórnarmaður Fylkis: Hermann er skotspónn fjölmiðla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkir mun ekkert aðhafast frekar í máli þjálfara liðsins, Hermanns Hreiðarssonar, sem tók stjórnarmann ÍBV hálstaki eftir leik liðanna í 4. umferð Pepsi-deildar karla á mánudaginn.

Ólafur Geir Magnússon, stjórnarmaður Fylkis, sagði fjölmiðla hafa blásið málið upp í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Sjá einnig: Hemmi í Akraborginni: Svona spjalla menn stundum í Eyjum

„Þarna eru tveir menn aðeins að ræða saman og kítast en þeir hafa nú rætt saman og leyst þetta eins og fullorðnum mönnum sæmir,“ sagði Ólafur Geir. Hann segir að málinu sé lokið af hálfu félagsins.

„Við gerum ekkert frekar í þessu máli. Við erum búnir að ræða þetta innanhúss og við Hermann. Þetta leit að sjálfsögðu mjög illa út og umfjöllunin hefur öll verið mjög óvægin. Það er eins og Hermann sé skotspónn fjölmiðla.

„Við sáum svona atvik uppi í Kór um daginn þegar landsliðsþjálfari kýlir annan þjálfara í punginn. Eru þið búnir að tala við stjórnarmenn Keflvíkinga? Ég veit ekki til þess,“ sagði Ólafur Geir og vísaði til þess þegar Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Keflavíkur, kýldi Reyni Leósson, þjálfara HK, eftir leik liðanna í 1. umferð Inkasso-deildarinnar á dögunum.

Sjá einnig: Arnar: Hegðun Hermanns óafsakanleg

Í samtali við Vísi í gær sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, að mál Hermanns sé til skoðunar hjá knattspyrnusambandinu. Klara sagðist vera að bíða eftir gögnum um málið og aðallega skýrslu dómara en framkvæmdarstjóri KSÍ hefur heimild til að vísa ákveðnum atvikum til aganefndar.

Fylkir situr á botni Pepsi-deildarinnar með ekkert stig en liðið mætir ÍA í afar mikilvægum leik á laugardaginn.

Fréttina má sjá í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×