Innlent

Stjórnarfrumvörp hafa forgang á nýtt eftirlaunafrumvarp

Valgerður Bjarnadóttir hefur barist fyrir því að eftirlaunaósóminn eins hún kallar hann verði afnuminn.
Valgerður Bjarnadóttir hefur barist fyrir því að eftirlaunaósóminn eins hún kallar hann verði afnuminn. MYND/GVA

Sú vinnuregla að láta stjórnarfrumvörp og frumvörp frá forsætisnefnd hafa forgang í allsherjarnefnd kemur í veg fyrir að frumvarp um breytingar á eftirlaunum æðstu embættismanna fái framgang. Þetta kom fram í máli Birgis Ármannssonar, formanns allsherjarnefndar, á Alþingi í dag.

Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því að hún hefðii þann 30. október í fyrra lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um eftirlaun æðstu embættismanna landsins, hinum svokölluðu eftirlaunalögum. Hún hefði lagt til að lífeyriskjör þingmanna, ráðherra og annarra æðstu embættismanna yrðu færð til samræmis við aðra ríkisstarfsmenn.

Valgerður sagðist hafa verið spurð um framgang málsins en hefði engu getað svarað. Því spurði hún Birgi Ármannsson um hvar málið væri en síðast þegar hún vissi væri það í allsherjarnefnd. Þá lagði Valgerður til að málinu yrði flýtt. Boðað hefði verið að landsmenn þyrftu að herða sultarólina á næstunni og ráðamenn ættu að geta sýnt á táknrænan hátt að við værum öll á sama bátinum.

Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, sagði málið hafa verið sent til umsagnar hjá 18 aðilum og sjö svör hefðu borist. Þá benti Birgir á að 33 mál hefðu komið til nefndarinnar í vetur en forgangsröðunin hefði verið með þeim hætti að stjórnarfrumvörp og frumvörp forsætisnefndar hefðu forgang.

Hann hygðist hins vegar beita sér fyrir umræðu á nefndardögum um framgang þingmála en honum væri ljóst að áhugi væri hjá nefndarmönnum að taka mörg þingmannamál til umfjöllunar.

Ekki flókið mál að breyta lögunum

Fjölmargir þingmenn tóku til máls og lýstu yfir stuðnigi við frumvarp Valgerðar og vildu flýta því. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri - grænna, spurði hvað dveldi orminn langa og sagði að út frá orðum Birgis væri að skilja að um geysilega flókið mál væri að ræða en svo væri ekki. Hann vildi að sérréttindabálkurinn yrði afnuminn og sagði LSR lífeyrissjóðinn opinn æðstu embættismönnum.

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði ekki ganga að þingmenn væru að skammta sér sérkjör. Vandamálið í störfum Alþingis væri að stjórnarfrumvörp hefðu algjöran forgang. Þá benti hann á að frumvarp um aðstoðarmenn þingmanna væri á hraðferð í gegnum þingið og það vantaði skipulag á því hvernig málin væru afgreidd. Það þyrfti að breyta verklagi nefnda Alþingis og taka frumvörp í réttri röð.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagðist vona að vinnubrögð væru að breytast á Alþingi og að þingmannafrumvörp fengu eðlilegan framgang. Kallaði hún eftir svörum frá ráðherrum um eftirlaunamálið og minnti á að þess væri getið í stjórnarsáttmálanum að breyta ætti lögunum. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði reynt að beita sér fyrir samkomulagi í málinu en ekki tekist og nú kæmust menn að því hvort Samfylkingunni tækist það.

Nægur tími til að fjalla um aðstoðarmannafrumvarp

Valgerður Bjarnadóttir lýsti vonbrigðum með að málinu hefði ekki verið þokað áfram og benti á að allsherjarnefnd hefði nægan tíma til að fjalla um kjör alþingismanna þegar ætti að bæta þau og vísaði þar til aðstoðarmannafrumvarpsins svokallaða. Flokksbróðir hennar, Helgi Hjörvar, benti á að mælt hefði verið fyrir eftirlaunafrumvarpinu upprunalega í desember og það hefði verið samþykkt í desember sama ár. Valgerður hefði mælt fyrir frumvarpi sínu í október síðastliðnum en það væri enn ekki afgreitt.

Skömmu eftir þessa umræðu var samþykkt að vísa aðstoðarmannafrumvarpi til þriðju umræðu á Alþingi en þess má geta að mælt var fyrir því 21. febrúar í ár.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×