Íslenski boltinn

Sterkir útisigrar hjá ÍBV og Stjörnunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harpa tryggði Stjörnunni stigin þrjú fyrir norðan.
Harpa tryggði Stjörnunni stigin þrjú fyrir norðan. vísir/anton
Tveimur leikjum er lokið í 10. umferð Pepsi-deildar kvenna.

Það var mikið skorað þegar Selfoss og ÍBV mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi. Alls urðu mörkin átta talsins en Eyjakonur fögnuðu sigri, 3-5.

Þetta var þriðji sigur ÍBV í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 5. sæti deildarinnar með 15 stig. Selfoss er aftur á móti búinn að tapa fjórum leikjum í röð og nálgast fallsvæðið.

Díana Dögg Magnúsdóttir kom ÍBV yfir á 11. mínútu en Magdalena Anna Reimus jafnaði metin 10 mínútum síðar.

Eyjakonur skoruðu svo næstu fjögur mörk leiksins en staðan í byrjun seinni hálfleiks var orðin 1-5, ÍBV í vil. Cloe Lacasse skoraði tvö þessara marka og Leonie Pankratz og Sigríður Lára Garðarsdóttir sitt markið hvor.

Selfyssingar gáfust ekki upp og Eva Lind Elíasdóttir minnkaði muninn í 2-5 á 48. mínútu, aðeins mínútu eftir að Lacasse skoraði seinna mark sitt. Magdalena skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Selfoss úr vítaspyrnu á 52. mínútu en nær komust heimakonur ekki og ÍBV fagnaði góðum sigri.

Á Þórsvelli mættust svo Þór/KA og Stjarnan í hörkuleik.

Hulda Ósk Jónsdóttir kom heimakonum yfir strax á 9. mínútu en Ana Victoria Cate jafnaði metin á 27. mínútu.

Staðan var 1-1 í hálfleik og allt fram á 74. mínútu þegar Harpa Þorsteinsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar eftir sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Þetta var 14. mark Hörpu í Pepsi-deildinni en hún hefur verið hreint óstöðvandi í sumar.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×