Innlent

Steinunn missir ekki svefn yfir áformum Jóns Ásgeirs

Formaður slitastjórnar Glitnis óttast ekki málshöfðun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem ætlar að krefjast kyrrsetningar á eignum hennar.
Formaður slitastjórnar Glitnis óttast ekki málshöfðun Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem ætlar að krefjast kyrrsetningar á eignum hennar.

„Ég missi ekki svefn út af þessu," segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, um þau orð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að hann hyggist höfða meiðyrðamál á hendur henni vegna meintra lyga í eiðsvörnum yfirlýsingum fyrir dómstólum.

Fréttablaðið náði ekki tali af Jóni Ásgeiri í gær en í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagðist hann jafnframt ætla að krefjast kyrrsetningar á eignum Steinunnar hjá sýslumanninum í Reykjavík þar til niðurstaða fengist í meiðyrðamálið.

„Þetta kemur svo sem ekki á óvart," segir Steinunn. „Það er greinilegt að hann er ósáttur við það sem við erum að gera en það eina sem ég er að gera er að sinna skyldum mínum í slitastjórn Glitnis við að grípa til þeirra aðgerða sem ég tel að séu nauðsynlegar. Honum er náttúrlega frjálst að gera það sem hann vill - ég kippi mér ekki upp við það."

Aðspurð segist Steinunn ekki telja að hún hafi að neinu leyti farið yfir strikið í eiðsvörnum yfirlýsingum sínum fyrir dómi í London og New York. Henni virðist sem málið snúist fyrst og fremst um tölvupóst með yfirliti yfir innistæður Iceland Foods. „Og ég hef aldrei fullyrt að þessar innistæður hafi tilheyrt honum," segir hún.

Jón Ásgeir sagðist í viðtali við Fréttablaðið í gær ætla að áfrýja alheimskyrrsetningu eigna sinna þrátt fyrir að dómari hafi hafnað beiðni hans um áfrýjun fyrir viku. „Mér skilst að hann geti óskað eftir áfrýjunarleyfi og það er síðan dómarans að ákveða hvort hann veitir það," segir Steinunn.

„Dómarinn var hins vegar býsna skýr hvað þetta varðaði og það hefur ekkert nýtt komið fram sem ætti að breyta þeirri afstöðu. Þetta mál með þennan tölvupóst breytir engu í þessu samhengi."

Spurð um kostnað slitastjórnarinnar við málaferlin segist Steinunn engar tölur geta gefið upp. „En það sem við höfum þegar endurheimt á grundvelli rannsóknar Kroll er að minnsta kosti tvöfalt það sem við höfum varið í rannsóknina og málaferlin," segir Steinunn. „Við teljum ljóst að það sé vel þess virði að eyða púðri í það að leitast við að endurheimta verðmæti og að okkur muni takast að endurheimta mun hærri fjárhæðir í gegnum þetta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×