Lífið

Steingrímur J. með bók um hrunið

Freyr Bjarnason skrifar
Steingrímur J. Sigfússon hefur skrifað heiðarlega bók um hrunið.
Steingrímur J. Sigfússon hefur skrifað heiðarlega bók um hrunið. fréttablaðið/gva
„Af minni hálfu lagði ég áherslu á að segja mína sögu heiðarlega,“ segir þingmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon.

Um næstu mánaðamót kemur út bókin Steingrímur J – Frá hruni og heim á vegum Bjarts.

Þar ræðir fjármálaráðherrann fyrrverandi við Björn Þór Sigbjörnsson um hvernig það var að vera í forystu við að reisa landið úr rústum hrunsins, tildrög þess að stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við árið 2009, þungbærum deilum við samherja og gerir upp hin miklu hitamál þessara ára.

„Það er nokkuð um liðið síðan ég lauk mínum þætti í þessu. Þetta var bara ánægjuleg glíma við að koma þessu saman með mjög öflugum og samviskusömum skrásetjara,“ segir Steingrímur, spurður út í bókina. „Ég vona að þetta standi undir væntingum og veiti fróðlega innsýn inn í þá hluti sem þarna eru til umfjöllunar.“

Hann bætir við: „Ég vildi ekkert hlífa mér við að greina frá minni sýn á hlutina, jafnvel þó að ég viti að í einhverjum tilvikum er hún önnur en annarra og einhverjir verða kannski fúlir,“ segir hann. „Auðvitað er maður í návígi við mikla atburði og er einn eða einn af fáum sem eru til vitnis um ýmsa hluti sem skiptu miklu máli fyrir landið á þessum tímum.“

Steingrímur vildi gefa bókina út fyrr en seinna á meðan atburðirnir væru honum enn ferskir í minni og á meðan málefni hrunsins eru enn til umfjöllunar hjá þjóðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×