Innlent

Stefna að gjaldtöku allan ársins hring í Nauthólsvík

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr Nauthólsvík
Úr Nauthólsvík vísir/stefán
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að fela sviðstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við ylströndina í Nauthólsvík allan ársins hring. Eins og er er aðeins rukkað fyrir aðstöðu á staðnum yfir vetrartímann.

Þórgnýr ThoroddsenVísir
„Þetta er ekki ný hugmynd og það hafa verið gerðar tilraunir með hana áður,“ segir Þórgnýr Thoroddsen formaður ráðsins. „Tillagan núna er lögð fram í ljósi aukinnar aðsóknar á ylströndina og aukinnar vinnu sem því tengist.“

Gjaldið hingað til hefur verið 500 krónur fyrir skiptið og hófst vetraropnun þann 15. ágúst. Þórgnýr segir að samfara auknum vinsældum strandarinnar hafi rekstrarkostnaður aukist. Þrif hafi þurft að vera tíðari og umgjörðin meiri. Borgin hafi hingað til séð um tilfallandi kostnað vegna búningsklefa, gufubaðs og í tengslum við heita pottinn.

„Sviðstjóri útfærir þetta og leggur fyrir ráðið og svo sjáum við hvaða leið verður farin. Sú útfærsla sem mér þykir álitlegust er að fólk greiði fyrir að nota búningsaðstöðuna en ekki til að fara í pottinn. Þannig sá sem kemur í gallanum hann gæti notað ströndina frítt eins og áður,“ segir Þórgnýr.

Stefnt er að því að gjaldtaka allan ársins hring hefjist á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×