Innlent

Staðfestu nálgunarbann yfir eiginmanni

viktoría hermannsdóttir skrifar
Hæstiréttur sneri við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem taldi að um hjónaerjur væri að ræða og staðfesti þannig nálgunarbannsúrskurð.
Hæstiréttur sneri við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem taldi að um hjónaerjur væri að ræða og staðfesti þannig nálgunarbannsúrskurð. Fréttablaðið/GVA
Hæstiréttur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að maður skyldi sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni við eiginkonu sína og son hennar, í fjórar vikur. Áður hafði héraðsdómur Reykjavíkur hafnað kröfu lögreglustjórans meðal annars á þeim forsendum að aðeins væri um eitt alvarlegt tilvik að ræða en „í hin skiptin verður ekki betur séð en um hjónaerjur sé að ræða“, segir í dómi héraðsdóms. Taldi dómurinn vegna þessa að ekki væru lagaskilyrði fyrir nálgunarbanninu.

Forsaga málsins er sú að lögregla hafði í nokkur skipti frá því í maí í fyrra verið kölluð að íbúð hjónanna vegna heimilisófriðar. Segir í dómnum að nágrannar hafi hringt í lögreglu vegna láta og að konan hafi oft þurft að flýja fram á gang vegna hræðslu við hann. Í eitt skipti þegar lögregla var kölluð til þá var maðurinn með hníf í hendi og sögðu eiginkonan og sonur hennar að maðurinn hefði otað hnífnum að þeim og hótað þeim. Í dómnum kemur fram að konan hafi ekki kært atvikið af ótta við að hún missti dvalarleyfi sitt hér á landi í kjölfarið. Farið var fram á nálgunarbannið 9. mars en sterkur grunur leikur á að maðurinn hafi sparkað í bak konunnar tveimur dögum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×