Innlent

Staða Íslands í makríldeilu verr tryggð innan ESB

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Staða Íslands í makríldeilunni við ESB og Noreg væri mun verri innan ESB heldur en utan, segir sérfræðingur lagastofnunar Háskóla Íslands. Þá segir hann að ef hótanir sjávarútvegsstjóra ESB um innflutningsbann á sjávarafurðum verði að veruleika sé það brot á EES-samningnum.

Á undanförnum árum hefur makríllinn í auknum mæli leitað ætis á Íslandsmiðum. Það er talið að 1,1 milljón tonna af makríl hafi verið á Íslandsmiðum sumarið 2010. Íslensk stjórnvöld hafa ekki orðið við kröfum ESB um að draga úr veiðum á makríl og þá hafa þau ekki fallist á ákvarðanir ESB um kvótaúthlutanir á makrílstfonum sem halda sig innan íslenskrar efnahagslögsögu.

María Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sagði í síðustu viku að hún vildi að aðildarviðræður Íslands við ESB yrðu frystar og að innflutningsbann yrði sett á íslenskar sjávarútvegsafurðir yrðu Íslendingar ekki við viðvörunum ESB vegna makrílveiða.

Valdið til að semja um stjórn stofnana færi til Evrópusambandsins

Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur og sérfræðingur í sjávarútvegskerfum við Lagastofnun HÍ, segir hæpið að íslenska ríkið gæti leikið einleik í málinu gegn ESB-ríkjunum væri það aðili að ESB. „Ég tel að það væri mun erfiðara af því að um leið og menn ganga inn í hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu þá hefur ESB valdið til þess að semja um deilistofna við önnur ríki. Núna hefur Ísland rétt til að semja, sem fullvalda ríki, en þegar um er að ræða sameiginlega stjórn á deilistofnum þá fer valdið til þess að semja um stjórn þessara stofna til Evrópusambandsins og stofnana þess," segir Helgi Áss.

Þannig að réttarstaða okkar væri verr tryggð innan ESB í þessari makríldeilu? „Ég myndi halda það en það fer þó auðvitað eftir þeim aðildarsamningum sem að yrðu á endanum samþykktir hvort að Ísland fengi að halda forræði sínu yfir þessum málaflokki."

En hvað með hótanir Damanakis um innflutningstakmarkanir á íslenskum afurðum. Væri það ekki skýlaust brot á EES-samningnum? „Fljótt á litið myndi maður ætla að verulegar líkur væru á að svo væri en um það yrði sjálfsagt deilt fyrir viðeigandi dómstólum." thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×