Fótbolti

Spurs úr leik eftir tap í Monaco | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tottenham Hotspur er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir 2-1 tap fyrir Monaco á útivelli í kvöld.

Monaco er komið áfram og búið að vinna riðilinn. Leverkusen, sem gerði 1-1 jafntefli við CSKA Moskvu, fylgir Monaco í 16-liða úrslitin.

Monaco var sterkari aðilinn í leik kvöldsins og átti sigurinn skilið. Ef ekki hefði verið fyrir frábæra frammistöðu Hugo Lloris hefði Monaco skorað fleiri mörk.

Tottenham fékk úrvalsfæri snemma leiks þegar Son Heung-Min komst einn í gegn en tókst ekki að koma skoti á markið.

Á 11. mínútu fékk Monaco vítaspyrnu. Radamel Falcao fór á punktinn en Lloris varði spyrnu hans. Monaco-menn voru áfram sterkari aðilinn en staðan í hálfleik var markalaus.

Upphafsmínútur seinni hálfleiks voru ótrúlegar. Djibril Sidibé kom Monaco yfir með skalla eftir fyrirgjöf Benjamins Mendy á 48. mínútu en Harry Kane jafnaði metin úr vítaspyrnu fjórum mínútum síðar.

Monaco-menn tóku miðju, geystust í sókn og Thomas Lemar kom heimamönnum yfir á nýjan leik. Aðeins 39 sekúndur liðu á milli marks 2 og 3.

Það sem eftir lifði leiks var Monaco nær því að bæta við mörkum en Tottenham að jafna. Og svo fór að Frakkarnir hrósuðu sigri, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×