Innlent

Sprengjuhótunin reyndist vera vírus

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Það er nokkuð algengt að þetta gerist með þessi opnu vefsvæði," segir Páley.
"Það er nokkuð algengt að þetta gerist með þessi opnu vefsvæði," segir Páley. Fréttablaðið/stefán
Sprengjuhótunin sem barst farþega, erlendum nemanda, um borð í Herjólfi í morgun reyndist vera vírus, að sögn Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum. Ferjan var rýmd og lögregla kölluð til eftir að hótunin barst, en ekkert dularfullt fannst um borð.

„Einn nemandinn opnaði símann sinn inni á opnu vefsvæði, opnu neti í skipinu - WiFi eða svokölluðu Hotspot. Þar fær viðkomandi skilaboð um að það sé sprengja um borð. Það var í raun ekkert annað tilgreint í skilaboðunum,“ segi Páley í samtali við Vísi.

Páley Borgþórsdóttir.
„Það er nokkuð algengt að þetta gerist með þessi opnu vefsvæði. Það er þannig að sá fyrsti sem skráir sig inn á vefsvæðið fær skilaboðin. Þetta þekkist um allan heim og líka á Íslandi. Það eru eflaust einhverjir sem líta á þetta sniðugan hrekk, sem þetta er auðvitað ekki.“

Hótunin barst um klukkan hálf ellefu í morgun. Innan við klukkustund síðar hafði lögregla leitað af sér allan grun. Páley segir að haft hafi verið samband við sérsveit lögreglu, en að ekki hafi verið talin þörf á að kalla hana út.

Nemendurnir, sem eru á framhaldsskólaaldri, komu frá Norðurlöndum, að sögn Páleyjar, og voru í dagsferð í Vestmannaeyjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×