Innlent

Sólveig Anspach vann til verðlauna á frönsku Cesar-verðlaununum

Anton Egilsson skrifar
Sólveig Anspach hlaut verðlaun fyrir besta handrit á Cesar verðlaununum í Frakklandi.
Sólveig Anspach hlaut verðlaun fyrir besta handrit á Cesar verðlaununum í Frakklandi. Vísir
Kvikmyndaleikstjórinn Sólveig Anspach hlaut í gær hin frönsku Cesar-verðlaun fyrir besta handrit. Verðlaunin hlaut hún fyrir mynd sína L’Effet Aquatique en það var síðasta kvikmyndin sem Sólveig gerði á ferli sínum. Sólveig lést í ágúst árið 2015, 54 ára að aldri.

Sólveig deildi verðlaununum með Jean-Luc Gage en þau bæði leikstýrðu og skrifuðu handrit kvikmyndarinnar í sameiningu. Cesar verðlaunin eru æðstu kvikmyndaverðlaun Frakklands.

Sólveig fæddist í Vestmannaeyjum þann 8. desember 1960. Hún ólst upp í útlöndum og stundaði háskólanám í heimspeki og klínískri sálfræði í París. Sólveig útskrifaðist svo frá kvikmyndaskólanum FEMIS í París árið 1990.

Sólveig fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2006. Hún sérhæfði sig í heimildamyndagerð framan af ferlinum en sneri sér svo í auknum mæli að leiknum myndum. Meðal mynda hennar eru „Haut les cæurs“, Nakin Lulu og Stormviðri sem var valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×