Innlent

Sólgos ná hámarki vorið 2013

Sólgos
Sólgos mynd/NASA
„Sólgos geta bæði haft alvarleg áhrif og lítil áhrif. Það er auðvitað eðlilegt að yfirvöld og ríkisstjórnir undirbúi sig fyrir að eitthvað alvarlegt gerist. Það er aldrei að vita hvað gerist."

Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. Hann var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis og ræddi þar við þáttastjórnendur um sólgos.

Sólin gengur nú í gegnum tímabundna sveiflu þar sem myndun sólbletta nær hámarki. Mikil orka hleðst upp við þessa bletti. Þegar hún svo losnar úr læðingi myndast sólgos sem þeyta hlöðnum eindum út í geiminn. Stöku sinnum lemja þessar eindir yfirborð jarðar og geta valdið miklum usla.

„Þessar agnir orsaka norðurljós en trufla líka rafsegulboð og bylgjur. Þannig geta þær haft áhrif á fjarskipti, útvarp, sjónvarp, raforkukerfið, gervihnetti og mögulega geimfara sem kunna að svífa um geiminn, segir Ari.

Hver sólgosasveifla tekur um ellefu ár og er talið að hún muni ná hámarki á næstu mánuðum.

„Núna er því spáð að vorið 2013 — eftir átta mánuði eða svo — að þá verði hámark. Það er verið að spá fyrir um hegðun sólar og hafa sumir spáð mesta hámarki síðan 1958," segir Ari.

Erfitt getur verið að áætla hvaða áhrif svo öflug sólgos geta haft á jörðina enda hefur fjarskiptatækni tekið gríðarlegum framförum á síðustu áratugum.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ara í heild sinni hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×